Lögreglan á Suðurlandi greinir frá því að maðurinn sem leitað var efst í Þjórsárdal aðfaranótt sunnudagsins hafi sjálfur hringt inn á neyðarlínu og tilkynnt um að ferðafélagar hans hefðu numið hann á brott og hygðust vinna honum mein.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær voru björgunarsveitir beðnar um aðstoð við leitina að manninum og var óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar við leitina vegna aðstæðna á vettvangi. Þyrla Landhelgisgæslunnar fann síðan manninn heilan á húfi í gærmorgun við Fossá.

Ferðafélagarnir höfðu aðra sögu að segja

Að því er kemur fram í tilkynningu frá lögreglu gat maðurinn litlar skýringar gefið á staðsetningu sinni en hann lagði á og svaraði ekki síma sínum eftir það. Greining á samskiptum við fjarskiptakerfi leiddi til þess að leitað var að manninum í Þjórsárdal.

Nokkru síðar fundust félagar mannsins á bensínlausum bíl en ástand þeirra var misgott að sögn lögreglu. Mennirnir höfðu aðra sögu að segja en félagi þeirra en þeir voru fluttir á lögreglustöðina á Selfossi.

Mennirnir fóru síðan frjálsir ferða sinna eftir því sem leið á daginn en þá var komin skýrari mynd á málið sem að lögum verður ekki fellt undir refsimál. Rannsókn málsins var því hætt.