Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, gagnrýndi Breta fyrir áform um að ferja hælisleitendur til Rúanda á þingi Evrópuráðsins. Sagði hún Boris Johnson forsætisráðherra reyna að láta eins og sterkan mann en aðgerðir hans væru í raun veikluð viðbrögð við popúlískum þrýstingi.

„Áður fyrr varaðir þú aðra við þessu. Nú ættir þú að horfa í spegilinn,“ sagði Þórhildur um aðgerðir Breta, sem hefur verið lýst sem brotum á mannréttindum og angi af kynþáttahatri.

Fleiri þingmenn gagnrýndu Breta, sem hyggjast leggja fram löggjöf þar sem breskir dómarar geta hnekkt úrskurðum Evrópska mannréttindadómstólsins. Bent var á að Rússland og önnur valdstjórnarríki myndu nota þetta sem fyrirmynd eða réttlætingu á eigin brotum á alþjóðalögum og samþykktum.

„Heimurinn lærði lexíu eftir seinni heimsstyrjöldina. Að hunsa Mannréttindadómstólinn er að hunsa þá lexíu,“ sagði hinn þýski þingmaður Julian Pahlke. „Boris Johnson leiddi Bretland út úr Evrópusambandinu. Núna er hann að leiða Bretland út úr evrópskum gildum.“