Donald Trump Bandaríkjaforseti fór hörðum orðum um Joe Biden, forsetaframbjóðenda Demókrata, í gær þar sem hann sakaði Biden um að aðhyllast öfga-vinstristefnu og fara gegn Guði.

Spá stjórmálaskýrendur því að Trump sé þar með að leggja grundvöllinn að harðri og orðljótri kosningabaráttu í haust.

„Hann er að fara að gera hluti sem enginn taldi gerlega vegna þess að hann aðhyllist stefnu öfga-vinstrisins. Fjarlægja byssurnar ykkar, gera útaf við annan viðauka stjórnarskárinnar. Engin trúarbrögð, ekki neitt. Særa Biblíuna, særa Guð. Hann er á móti Guði. Hann er á móti skotvopnum,“ sagði Trump í ferð sinni til Ohio.

Sagði árásina svívirðilega

Trump reynir nú að ná vopnum sínum í hinum mikilvægu miðvesturríkjum sem báru hann til sigurs í forsetakosningunum árið 2016.

Flestar skoðanakannanir þar ytra benda nú til þess að Biden, sem er yfirlýstur kaþólikki, gæti haft Hvíta húsið af sitjandi forseta í nóvember.

Biden hefur ítrekað rætt opinberlega hvernig trúin hafi hjálpað honum að lifa með dauðsfalli dóttur sinnar og þáverandi eiginkonu sem létust í bílslysi árið 1972.

Í yfirlýsingu segir Biden þessi ummæli Trumps vera „svívirðileg“ og að trú hans á Guð hafi verið órjúfanlegur hluti af lífi sínu.

„Árás Trumps á trú mína er svívirðileg. Hún er fyrir neðan virðingu embættisins sem hann gegnir og er fyrir neðan þá virðingu sem bandarískur almenningur ætlast réttilega til af og eiga skilið frá leiðtogum sínum.“