Magdalena Andersson, nýr forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur sagt af sér aðeins sjö klukkustundum eftir að hún tók við embætti. Hún tók við embætti forsætisráðherra af Stefan Löfven fyrr í dag og varð þá fyrsti kvenforsætisráðherra í sögu landsins.

Andersson tilkynnti afsögn sína í kjölfar þess að Græningjar ákváðu að draga til baka stuðning sinn við stjórn hennar eftir að fjárlagafrumvarp hennar náði ekki fram að ganga innan þingsins. Þess í stað var fjárlagafrumvarp Miðflokksins, Kristilegra demókrata og Svíþjóðardemókrata samþykkt og þótti Græningjum það ekki ganga nógu langt til að tækla loftslagsmálefni.

Nýi forsætisráðherrann segist málið snúast um virðingu. „Ég get ekki leitt ríkisstjórn ef tilefni er til að efast um lögmæti hennar,“ sagði hún. Andersson hefur þó tjáð Andreasi Norlén, forseta sænska þingsins, að hún hafi enn áhuga á að leiða minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins.