Ágústa Björk Jósefs­dóttir var stödd í Ikea með vin­konu sinni, Haf­rúnu Ólöfu og dóttur hennar Aríu Christy, fyrr í dag þegar hún varð vitni að ó­for­skammaðri hegðun full­orðinnar konu.

Ágústa þurfti að fara á salernið og beið Haf­rún frammi með dóttur sinni á meðan en hún er að­eins sjö mánaða gömul. At­burða­rásin sem Ágústa varð vitni að inni á salerninu kom henni úr jafn­vægi og segir hún í sam­tali við Frétta­blaðið að hún, á­samt Haf­rúnu, hafi á­kveðið að segja frá til þess að vekja at­hygli á því hversu miklir kyn­þátta­for­dómar leynast á Ís­landi. Vinkonurnar deildu því reynslu sinni á Facebook-síðunni Mæðratips í þeirri von um að konan sem lét orðin falla sjái þau og hugsi sinn gang.

Kom ekki upp orði

„Meðan ég var að pissa þá kom kona inn með barn með sér og barnið segir: „Vá hvað þetta var ljót stelpa.“ Ágústa bætir við að konan, sem hún telur að hafi verið móðir barnsins, hafi látið þetta óátalið. Varð hún forviða þegar konan svaraði barninu og sagði: „Já ég veit elskan, það er af því að hún er svört.“ Í huga Ágústu fór það ekki á milli mála að þarna átti hún við dóttur vinkonu hennar.

„Ég vissi auð­vitað að hún væri að tala um barn vin­konu minnar því hún var eina barnið fyrir utan klósettið. Það skiptir ekki máli, heldur hvernig konunni láti sér detta það í hug að segja þetta við barnið sitt, og með þessu kenna henni ras­isma og við­bjóð? Ég var í svo miklu sjokki að ég kom ekki upp orði,“ segir Ágústa.

Hvenær stoppar þetta?

Ágústa kveðst enn vera í á­falli vegna fordómanna sem hún varð vitni að og beindust gegn litlu barni. Hún á erfitt með að trúa að slíkt hafi átt sér stað á árinu 2020. Þá var hún slegin að verða vitni af því að fullorðið fólk sé að kenna börnum slíka hegðun og fara í mangreiningarálit vegna húðlitar.

„Er fólk enn að kenna börnunum sínum að fólk sem er ekki „hvítt“ sé eitt­hvað minna virði en „hvíta fólkið“? Að þau séu ljót og þess háttar? Hve­nær stoppar þetta?“