Sjöfn Sæ­munds­dóttir og Mailinn Soler segjast hafa sömu sögu að segja og Bryn­dís Ás­munds­dóttir, leik­kona og söng­kona, um of­beldi í nánu sam­bandi. Bryn­dís sagði sína sögu í þættinum Eigin konur í stjórn Eddu Falak í vikunni en þar lýsti Bryn­dís því að hafa verið í of­beldis­sam­bandi í mörg ár við mann sem beitti hana margs konar of­beldi. Konurnar eiga það allar sam­eigin­legt að hafa verið í sam­bandi við sama mann og eiga með honum börn en maðurinn er þekktur í íslensku samfélagi.

Þær Sjöfn og Mailinn segja í yfir­lýsingu sem þær birtu í gær að þær hafi á­kveðið að stíga fram til að styðja við bakið á Bryn­dísi og til að stað­festa að þær hafi sömu sögu að segja.

„Við höfum allar fengið ó­teljandi hvetjandi skila­boð og ætlum að stíga fram eftir margra ára þögn og segja okkar sögur. Það er alls ekki auð­velt en tíminn er svo sannar­lega kominn. Það er mann­skemmandi að vera í svona of­beldis­sam­bandi, ekki bara fyrir okkur mæðurnar heldur líka fyrir sak­lausu börnin,“ segja þær í yfir­lýsingunni og að saga Bryn­dísar sé eins og þeirra saga.

„Enda breytast þessir of­beldis­menn því miður ekki.“

Í við­talinu við Eddu Falak sagði Bryn­dís frá því að eftir að sam­bandinu lauk var hún greind með geð­hvarfa­sýki sem hún sagði hafa verið notað gegn henni í for­ræðis­deilu hennar við barns­föður hennar.

Þar kom einnig fram að Bryn­dís kærði manninn á sínum tíma fyrir heimilis­of­beldi, kyn­ferðis­legt of­beldi, and­legt og líkam­legt of­beldi og að mál hennar sé nú til með­ferðar hjá Mann­réttinda­dóm­stóli Evrópu en níu konur hafa í sam­starfi við Stíga­mót farið með mál sín þangað eftir að hafa ekki fengið úr­lausn hér á landi.

Hægt er að hlusta á við­talið við Bryn­dísi í Eigin konum í heild sinni hér að neðan.