Á þriðja tug frásagna af misrétti gagnvart hinsegin fólki í þjóðkirkjunni hér á landi hefur verið safnað í formi viðtala í samstarfsverkefni Samtakanna '78 og Þjóðkirkjunnar, Ein saga - eitt skref.

Heimasíða verkefnisins verður formlega opnuð á sérstökum viðburði í Skálholti sem hefst klukkan eitt í dag en verkefnið hefur verið í gangi síðastliðin tvö ár.

Bjarndís Helga Tómasdóttir, varaformaður stjórnar Samtakanna '78, hefur haldið utan um verkefnið og segir hún markmið þess vera að safna frásögnum fólks af misrétti og fordómum innan þjóðkirkjunnar og varðveita þær.

Einnig jákvæðar sögur

Að sögn Bjarndísar Helgu er fólk að deila upplifun sinni á ólíkum tímum af þeim viðhorfum sem það hefur mætt innan kirkjunnar. Hún segir sögurnar af ýmsum toga, stundum sé verið að tala um ákveðin atvik en einnig um almenn viðhorf innan kirkjunnar sem hinsegin fólk hefur mætt í gegnum tíðina.

„Mörg eiga líka jákvæðar sögur og auðvitað eru þær hluti af þessu verkefni,“ segir Bjarndís Helga og bætir við að gildi verkefnisins sé að sjá til þess að frásagnirnar týnist ekki og hverfi.

Sögurnar varðveittar

Á vefsíðu verkefnisins munu birtast brot úr nokkrum sögunum en allar sögurnar munu fara í heild sinni til varðveislu og uppritunar hjá Þjóðháttasafni Þjóðminjasafns Íslands að sögn Bjarndísar Helgu.

Á safninu verða sögurnar gerðar aðgengilegar fræðafólki og almenningi. „Saga sem þessi má ekki gleymast. Hún er hluti af áfallasögu hinsegin fólks,“ segir Bjarndís Helga um verkefnið.

Bjarndís Helga segir að þrátt fyrir að heimasíða verkefnisins verði formlega opnuð í dag sé verkefninu alls ekki lokið, „ég mun áfram safna sögum og fólk má gjarnan hafa samband vilji það deila sinni sögu.“

Skref til sátta

Á vef þjóðkirkjunnar segir að frásagnirnar séu af ýmsum toga, þær eigi það þó sameiginlegt að vera vitnisburður um þá ómenningu fordóma og misréttis sem viðgengust of lengi innan kirkjunnar.

Með því að draga persónulega reynslu hinsegin fólk fram í dagsljósið sé kirkjan að stíga eitt skref í átt til sátta.