Bæjarstjórn Múlaþings stefnir að því að flytja hús Tækniminjasafnsins á Seyðisfirði á svæði sem kallast Lónsleira og er öruggt fyrir aurskriðum. Í desember í fyrra skemmdist húsakostur safnsins í miklum skriðum.

Björn Ingimarsson sveitarstjóri segir bæjarstjórn vinna að færslu nokkurra húsa en gera þurfi nýtt aðalskipulag fyrir svæðið, bæði Lónsleiruna sjálfa og hafnarsvæðið sem tengist henni. Stefnt er að því að byggja upp þjónustusvæði en fyrir er meðal annars gistihúsarekstur.

Björn Ingimarsson sveitarstjóri

Eftir skriðurnar hafa starfsmenn Þjóðminjasafnsins aðstoðað við að grisja safnkostinn. Þá var einnig safnað peningum fyrir Tækniminjasafnið í hópfjármögnun á Karolina Fund til að endurbyggja húsakostinn.

Björn segist ekki eiga von á því að fjármögnun flutningsins verði vandamál. Tímasetningarnar séu þó enn óljósar. „Þetta er samstarfsverkefni sveitarfélagsins og ríkisins og þetta samtal á sér stað núna,“ segir Björn. „Fjármögnunin gæti komið úr Ofanflóðasjóði eða sem sérstakt framlag.“ n