Sólborg Guðbrandsdóttir tónlistarkona hefur haldið úti Instagram-síðunni Fávitar í eitt og hálft ár. Þar safnar hún saman skjáskotum af kynferðislegri áreitni karlmanna gegn bæði konum og körlum.  Í dag eru um sex þúsund manns sem fylgjast með reikningnum og segir Sólborg að hún fái send skjáskot sem inni haldi áreitni á hverjum degi.

„Ég „er“ þarna inni á hverjum degi. Nokkrum sinnum á dag. Í hvert skipti sem ég logga mig inn er ég búin að fá einhver skjáskot send frá mismunandi fólki,“ segir Sólborg í samtali við Fréttablaðið í dag.

Sólborg fær send skjáskot af bæði samtölum þar sem menn eru áreita konur og karla og skjáskot af typpamyndum og öðrum líkamshlutum sem hún birtir á síðunni. Sólborg hefur það þó sem reglu að birta ekki myndina þannig það sé greinanlegt hver er á henni. Einnig þurrkar hún út eftirnöfn.

„Stundum læt ég fornafnið fylgja með og kannski eitthvað þannig sé þó ekki hægt að beintengja skjáskotið við viðkomandi,“ segir Sólborg.

Hún segir það gert til að draga frekar athygli að því hversu margir verða fyrir slíkri áreitni.

„Megintilgangurinn er frekar að fræða um magn áreitis sem á sér stað bakvið skjáinn, frekar en að úthúða einhverjum sem er að áreita. Þeir sem eru að áreita eru bara venjulegt fólk sem við verjum okkar dögum með. Þetta eru engin skrímsli sem eru að senda þessi skilaboð og þessar myndir. Mér finnst rosalega mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því,“ segir Sólborg.

Engin lausn að blokka eða loka aðgangi

Ein leið til að komast hjá slíkum skilaboðum gæti auðvitað verið að vera með lokaðan aðgang en Sólborg segir að það þurfi ekki endilega að leysa öll vandamál. Menn sem vilji senda slík skilaboð, sendi þau samt.

Sólborg segir sem dæmi að hún hafi sinn reikning opinn og því geti hver sem er sent henni skilaboð. En hún telur að það sé almennt mjög misjafnt hvernig fólk hagi slíku á sínum samfélagsmiðlum.

„Þetta eru einstaklingar allt niður í þrettán ára sem fá þessi skilaboð send. Þá er það bara stundum þannig að þær fá message request á Instagram. Þær eru með lokaðan reikning ,en fá samt beiðni. Auðvitað velur maður þá hvort maður svari eða ekki. Það að vera með lokað eða blokkera fólk strax það leysir engan vanda. Það er þá bara einhver annar sem fengi skilaboðin,“ segir Sólborg sem segir að karlmennirnir sem eru á áreita séu á öllum aldri.

Karlmenn sem áreita í meirihluta

Af þeim 300 myndum sem eru á Instagram-reikningnum er um að ræða einhverjar myndir frá Sólborgu sjálfri með hvatningu til þeirra sem fylgja henni. En flestar eru þær af skjáskotunum af áreitni. Þar er um að ræða áreitni af hendi karlmanna í öllum tilfellum nema einu.

„Í öllum skjáskotum nema einu eru gerendum karlmenn. Í einu tilfelli er sá sem áreitir kona. Ég veit ekki hvort strákar eru feimnari til að senda skilaboðin,“ segir Sólborg.

Spurð hverju hún vilji áorka með síðunni og birtingu myndanna segir Sólborg að hún vilji vekja athygli á því sem gerist bak við skjáinn og vilji þannig hafa áhrif á umræðu og hvetja til þess áreitnin sé rædd. 

„Ég vil að fólk geri sér grein fyrir því hvað er að gerast bak við skjáinn. Mig langar að við tölum um þetta. Mig langar ekki að lausnin sé alltaf að blokkera viðkomandi og halda áfram með daginn okkar, því áreitnin á ekki að vera til staðar til að byrja með. Við þurfum skýrari samskipti um mörk og kynlíf. Það eru oft svo óljós skil á milli kynlífs og ofbeldis og eðlilegra og óeðlilegra samskipta. Mig langar í miklu miklu meiri umræðu,“ segir Sólborg.

Greinarmunur á áreitni og viðreynslu

Hún segir að annað sem verði að hafa í huga í umræðunni er að fólk geri greinarmun á áreitni og viðreynslu og að slíkar myndsendingar séu stundum í lagi. Það þurfi einfaldlega að vera alveg á hreinu að báðir aðilar vilji móttaka þær.

„Það á ekki að senda myndir í óþökk einstaklinga eða til ókunnugra einstaklinga. Það er að sjálfsögðu ekkert að því að tveir einstaklingar tali saman á netinu þar sem báðir aðilar eru að ræða einhverjar myndir eða kynlíf. En þær eiga ekki að vera sendar í óþökk og þetta á ekki að vera eitthvað sem konur eiga einfaldlega að sætta sig við, að karlar vilji bara vippa út á sér kynfærunum og sýna þau, því það er það sem þeir vilja,“ segir Sólborg að lokum.

Hægt er að fylgjast með Instagram-síðunni Fávitar með því að fara inn á hana hér að neðan. 

View this post on Instagram

Ég velti því oft fyrir mér hvort ég þurfi eitthvað að vera að halda áfram með þessa síðu og birta fleiri ógeðsleg skilaboð. Það er lítið um jákvæðni hér inn á enda gerir það lítið gagn að reyna eitthvað að sykurhúða kynferðislega áreitni. Hún er aldrei eitthvað jákvætt. Þar af leiðandi tekur þessi síða á hjá mér andlega sem og eflaust flestum sem fylgja henni. Það er erfitt að vera stöðugt áminnt um það hversu ljótir hlutir viðgangast á bakvið skjáinn. Þegar ég á litla orku eftir í líkamanum logga ég mig hingað inn á og sé hversu mörg skjáskot ég hef fengið send síðan örfáum klukkustundum áður og geri mér þá aftur grein fyrir því hversu sorglega algengt þetta er og hversu nauðsynlegt það er að vitundarvakningin haldi áfram. Við getum allar sagt #METOO og það er ömurleg staðreynd. Þið eruð rúmlega 6 þúsund sem fylgið síðunni og fyrir það er ég sjúklega þakklát. En ég vil að þið séuð miklu fleiri, 60 þúsund, 600 þúsund. Við þurfum öll að gera þetta saman og það strax, svo dætur okkar og dætur þeirra komi til með að búa í öruggari heimi. Hvaða manneskja í þínu lífi ætti að fylgja okkur? Taggaðu hana. Lets go! #favitar

A post shared by Fávitar (@favitar) on