Keflvíkingurinn Garðar Ólafsson hóf í gær söfnun á söfnunarsíðu Rauða kross Íslands fyrir neyðarvarnir á Seyðisfirði. Þegar fréttin er skrifuð eru búnar að safnast um 1,4 milljón.

„Þetta er búið að þróast ansi hratt. Ég byrjaði í gær og fólk byrjaði að leggja inn. Ég setti á Instagram líka þar sem ég er með mjög marga fylgjendur,“ segir Garðar sem er ljósmyndari og vinnur við auglýsingagerð.

Hann segir að hann hafi útskýrt söfnunina fyrir fylgjendum sínum og þær náttúruhamfarir sem hafi átt sér stað þar undanfarna daga. 

„Þá byrjaði að rigna inn alls staðar að,“ segir Garðar.

Hann segir að hann eigi engin bein tengsl við Seyðisfjörð en að hann hafi ferðast mikið um landið undanfarin tíu ár og komið við á Seyðisfirði.

„Ég hef komið við þar af og til og þekki til þarna. Versla þarna, hef spjallað við fólkið og svo var í vinnu þarna við gerð auglýsingar í tvo daga. Ég á því engin bein tengsl en mér þykir vænt um þennan bæ. Þetta er fallegur bær og mér finnst þetta rosalega leiðinlegt,“ segir Garðar.

Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum fer upphæðin öll í neyðarstarf á Seyðisfirði. Hægt er að styrkja verkefnið á heimasíðu þeirra sem Garðar deilir hér að neðan.

„Það er svo gott að geta hjálpað þótt maður sé langt í burtu,“ segir Garðar að lokum.

Ég hef stofnað söfnunarsíðu fyrir fólkið á Seyðisfirði 👉🏼 https://gefa.raudikrossinn.is/9526 Ástandið þar er svakalegt og líka svona rétt fyrir jól 😢 Margt smátt gerir eitt stórt!

Posted by Garðar Ólafsson on Friday, 18 December 2020

Söfnun Garðars hefur farið á nokkuð flug á Instagram og þar má sjá aðra deila upplýsingum um hana, þar á meðal plötusnúðinn Dóru Júlíu.

Fólk deilir upplýsingum um söfnunina í story á Instagram.
Skjáskot/Instagram

Á samfélagsmiðlum má sjá að Garðar er ekki einn um að vilja hjálpa og má sannarlega segja að landinn hafi komið saman til að hjálpa Seyðfirðingum. Hér að neðan má sjá nokkur dæmi um þá aðstoð sem þeim hefur verið boðin.

Hótel Keflavík hefur boðið Seyðfirðingum að gista frítt yfir jól og áramót.

Við erum harmi sleginn yfir fréttum dagsins um viðburðina á Seyðisfirði. Við viljum leggja fjölskyldum lið sem...

Posted by Hotel Keflavik - Hótel Keflavík on Friday, 18 December 2020

Tónlistarmaðurinn og rapparinn Kött Grá Pjé sagði að náttúran væri hrikaleg og hvatti fólk til að styrkja björgunarsveitina Ísólf.

Íþróttafélagið Leiknir gaf fjármuni úr sektarsjóð sínum og hvatti önnur félög til að gera slíkt hið sama. Peninginn lagði félagið inn á björgunarsveitina Ísólf á Seyðisfirði.