Vinkonur ungrar móður, Margrétar Völu Steinarsdóttur, sem varð bráðkvödd fimmtudaginn 12. janúar síðastliðinn hafa tekið sig saman og stofnað styrktarreikning til að safna fyrir útfararkostnaði.

Margrét Vala var fædd 22. janúar 1996 og hefði því orðið 27 ára gömul um helgina. Hún lætur eftir sig tvo unga syni.

„Það að þurfa að jarða barn sitt langt fyrir aldur fram er ólýsanlegur sársauki sem ég get rétt svo ímyndað mér. Það að geta lagt sitt að mörkum þarf ekki að vera mikið léttir undir fyrir foreldra og fjölskylduna hennar Völu sem er en að ná áttum á þessum erfiða tíma,“ skrifar Ísey Jökulsdóttir, vinkona Margrétar Völu, á Facebook síðu sína.

Ísey segir þær vinkonurnar hafa ákveðið að taka höndum saman og stofna styrktarreikning til að stemma stigum við kostnað útfarar Margrétar Völu. Ef afgangur verði muni hann renna til drengjanna tveggja.

Söfnunarreikningurinn er á nafni Sigurveigar Jóhannsdóttur, vinkonu Margrétar Völu:

Kennitala: 290198-2249 Reikningsnúmer: 0132-15-088123