Þau sem standa að baki söfnun loforða um hlutafé til stofnun nýs flugfélags eða endurreisnar fallna flugfélagsins WOW Air vilja ekki segja til nafns né svara öðrum spurningum Fréttablaðsins.

Fréttablaðið greindi fyrst frá því í dag að á vefsíðunni hluthafi.com gefst almenningi færi á því að leggja fram loforð um hlutafé í nýju flugfélagi. „Við teljum að ef Skúli og hans besta fólk getur endurreist WOW Air þá eigum við sem einstaklingar í þessu landi að sameinast um að hjálpa til. Því hvetjum við einstaklinga og fyrirtæki til að leggja fram lítils háttar hlutafé í krafti fjöldans og tryggja rekstur WOW Air til framtíðar,“ segir m.a. á vefsíðunni.

Samkvæmt Network Solutions var lénið hluthafi.com skráð stuttu fyrir klukkan þrjú að degi til á föstudaginn síðastliðinn. Hins vegar er ekki ljóst hver stendur að baki síðunni, en á henni segir aðeins að um sé að ræða „fyrrverandi viðskiptavini WOW Air og annarra flugfélaga“.

Fréttablaðið sendi fyrirspurn á þartilgert netfang sem finna má á vefsíðunni, og spurðist m.a. fyrir um hver stæði fyrir framtakinu og hvort þau höfðu einhver tengsl við WOW Air. Einnig var spurt hversu mikið fé hefði verið lofað til stofnun félagsins og hve margir einstaklingar og lögaðilar hefðu lofað félaginu hlutafé, sem og hvort að hópurinn á bak við heimasíðuna væri í einhverjum samskiptum við fyrrverandi stjórnendur WOW Air.

Eins og fram hefur komið hefur Skúli Mogensen, stofnandi og fyrrverandi forstjóri WOW Air, unnið að því að stofna nýtt flugfélag í stað WOW Air. Með honum vinna að því nokkrir af fyrrverandi lykilmönnum WOW Air, og var m.a. fundað með fulltrúum eigenda Keahótela fyrir helgi.

Í svari frá hluthafa.com er vísað til 12. gr. laga um hlutafélög og sagt að stofnun félagsins hafi ekki farið fram. Jafnframt segir að vefsíðan sé aðeins vettvangur til að safna saman áskrifendum svo að þeir hafi síðar heimild til að sækja stofnfund hins væntanlega hlutafélags ef skilyrðin eru uppfyllt, þ.e. að WOW Air sé endurreist eða nýtt lággjaldaflugfélag stofnað.

Er loks bent á að fjölmiðlum gefst kostur til að senda fyrirspurnir fram til klukkan sjö í kvöld og að þau sem standa að vefsíðunni vonist til að svara sem flestum þeirra í fyrirlýsingu sem send verður út á morgun eða á þriðjudag. Undir póstinn er kvittað „Virðingarfyllst, Hluthafi.com“.

Uppfært 20.02. Í kvöldfréttum RÚV var greint frá því að netafbrotadeild lögreglunnar muni taka heimasíðuna til skoðunar á morgun.