Hópurinn sem stendur að baki „Takk Bára“ hefur hafið söfnun vegna mála­ferla Klausturs­þing­manna á hendur Báru. Í til­kynningu frá hópnum segir að lög­fræði­stofan Réttur reki málið fyrir hönd Báru og að þrátt fyrir veru­legan af­slátt sem þau veiti henni af kostnaði standi eftir um 300 þúsund krónur. Hópurinn hefur því tekið sig saman og boðið upp á ýmsa skemmtun, bækur og annað til að styrkja Báru.

Söfnunin fer fram á vef­síðunni Karolina­fund. Þar má sjá að þai sem þegar hafa lagt söfnuninni lið eru lista­mennirnir Hug­leikur Dags­son, Sara Oskars­son, Harald Bil­son, Ragn­hildur Jóhanns­dóttir, Jóhann Ludwig Torfa­son, María Gísla­dóttir, Ragnar Jón Ragnar­son (Humi), Þrándur Þórarins­son, lista­fólkið á bak við sýninguna Drag-Súgur, auk Margrétar Erlu Maack með sýninguna Búkalú. Þar segir að á­huga­samir geti enn lagt til verk í söfnunina.

„Takk Bára”-hópurinn var stofnaður til að slá skjald­borg um Báru eftir að hún kom fram sem upp­ljóstrarinn Marvin eftir að hafa tekið upp sam­tal þing­manna á Klaustri bar í nóvember í fyrra og komið upp­tökunni til fjöl­miðla. Hópurinn hefur frá upp­hafi snúist um móralskan stuðning við Báru sem og mögu­legan mögu­legan fjár­hags­legan stuðning vegna kostnaðar hennar við mála­ferli og annað um­stang sem fylgir því að standa í eld­línunni,“ segir í til­kynningu.

Þau segja söfnunin eiga að leggja Báru lið með ýmsum hætti en á hana hefur ýmis kostnaður fallið, bæði beinn og ó­beinn, vegna málsins.

„Mark­miðið er að safna fyrir lög­fræði­kostnaðnum en allt um­fram það nýtist Báru í að rétta sig af fjár­hags­lega. Mörg ykkar hafa verið að bíða eftir því að geta sagt „Takk Bára” í formi fjár­fram­lags. Sá tími er kominn. Gerum þetta saman!“ segir í til­kynningunni.

Hægt er að leggja inn á banka­reikning geta lagt inn á reikning í eigu Rann­veigar vin­konu Báru: 0303-26-2817 kt. 171279-5779

Nánari upp­lýsingar um söfnunina er hægt að finna hér á Karolina­fund.