„Í fyrra fylltum við nánast stúkuna og fólk hefur tekið ótrúlega vel í þetta,“ segir Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður í Breiðabliki og fyrrverandi leikmaður HK. Hann, ásamt liðsfélögum, mun á laugardaginn, 11. janúar, spila góðgerðarleik í knattspyrnu til að heiðra minningu Bjarka Más Sigvaldasonar sem lést langt fyrir aldur fram á síðasta ári eftir harða baráttu við krabbamein.

„Leikurinn er á milli Breiðabliks og HK en Bjarki var alinn upp í HK og var ótrúlega öflugur fótboltamaður,“ segir Gunnleifur. „Hugmyndin er sú að styrkja eitt góðgerðarfélag á hverju ári og í ár varð Ljónshjarta fyrir valinu,“ bætir hann við.

„Valið stóð á milli margra góðra félaga en í samráði við Ástrós, eiginkonu Bjarka, völdum við Ljónshjarta en félagið vinnur ótrúlega flott starf fyrir ungt fólk sem hefur misst maka og börnin þeirra,“ segir Gunnleifur.

„Það hafa allir tekið ótrúlega vel í verkefnið, bæði leikmennirnir, Kópavogsbúar og aðstandendur mótsins sem tóku því fagnandi að þessi leikur yrði kallaður Bjarka­leikur og að safnað yrði fyrir góðu málefni,“ segir Gunnleifur.

F28100517 Blixleikme-30.jpg

Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks.

Aðspurður að því hvort samvinna mótherjanna HK og Breiðabliks hafi gengið vel, þrátt fyrir að liðin séu keppinautar inni á vellinum, segir Gunnleifur að svo sé. „Íþróttafélög eru svo miklu meira en bara keppinautar, innan þeirra fer fram uppeldisstarf og samstarfið á milli félaganna verður betra með hverju árinu. Nú fáum við tækifæri til þess að vinna saman og hjálpa fólki í leiðinni,“ segir hann.

„Við höfum gert þetta áður og það gekk ótrúlega vel, svo stefnum við að því að gera þetta einu sinni á ári. Það er auðvelt fyrir íþróttafélög á Íslandi að gefa af sér til samfélagsins með þessum hætti og þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta blessaða líf um það að gefa af sér,“ segir Gunnleifur.

„Það er bara frábært fyrir okkur að fá þetta tækifæri, vinna saman en fara svo í keppnisgírinn í níutíu mínútur og Breiðablik ætlar að sjálfsögðu að vinna,“ segir Gunnleifur brosandi.