Ásthildur Björnsdóttir stofnaði nýlega, ásamt systur sinni Auðbjörgu Björnsdóttur, áheita- og styrktarsíðuna, Áfram Klara á Facebook, fyrir Klöru litlu sem slasaðist alvarlega í hoppukastalaslysi síðasta sumar á Akureyri.

Fjölmiðlar greindu frá slysinu þegar hoppukastali tókst á loft með yfir 100 börnum innbyrðis við Skautahöllina á Akureyri í byrjun júlí í fyrra.

Greint var frá því að sjö börn hefði verið flutt á sjúkrahús á Akureyri. Þá slasaðist eitt sex ára barn alvarlega og var flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur.

Hin sex ára gamla Klara lenti á gjörgæslu eftir slysið og síðan þá hefur Klara sem nú er orðin sjö ára og fjölskylda hennar staðið í langri og strangri endurhæfingu.

Styrkur í útiveru og hreyfingu

Ásthildur, er frænka Klöru, og segir að frá slysinu hafi móður Klöru þótt gott að komast út og hreyfa sig. Að sögn Ásthildar hafi hún fundið styrk í hreyfingunni á þessum erfiðu tímum.

Í kjölfarið hafi hún tekið ákvörðun um að klára hálfan Landvætt í ár.

Ásthildur segir ættingja og vini fjölskyldunnar hafi langað til að hjálpa og sýna fjölskyldunni stuðning í verki.

„Maður verður svo vanmáttugur þegar eitthvað svona gerist, mann langar svo að hjálpa en þetta er allt í höndum heilbrigðisstarfsfólk svo það er takmarkað sem maður getur gert,“ segir Ásthildur og bætir við að þau hafi ákveðið að taka þátt í Landvættum með móður Klöru.

„Sumir hafa aldrei stigið á gönguskíði á ævinni. Fólk er bara búið að skrá sig í Fossavatnsgönguna og á ekki einu sinni skíði,“ segir hún og hlær.

Ásthildur segir Klöru í mikilli endurhæfingu alla daga, þau ætli að nota hennar dugnað sem eldmóð til að klára þrautirnar.

Fjórar þrautir í mismunandi landshlutum

Landvættur er fjölþrautafélag og til þess að geta orðið Landvættur þarf viðkomandi að afreka fjórar þrautir á innan við 12 mánuðum. Þrautirnar fara fram í mismunandi landshlutum og eru eftirfarandi samkvæmt heimasíðu félagsins:

Vesturhluti: Fossavatnsgangan, 50 km skíðaganga á Ísafirði.

Norðurhluti: Jökulsárhlaupið, 32.7 km hlaup frá Dettifossi til Ásbyrgis eða Þorvaldsdalsskokkið um 25 km óbyggðahlaup eftir endilöngum Þorvaldsdal í Eyjafirði.

Austurhluti: Urriðavatnssundið, 2.5 km sund í Urriðavatni nálægt Fellabæ.

Suðurhluti: Blue Lagoon Challenge, 60 km hjólreiðar frá Hafnarfirði.

Ofur Landvættur til styrktar Klöru

Að sögn Ásthildar ætla að minnsta kosti 18 manns að tækla sumar þrautirnar í Landvætti, hálfan, heilan eða ofur Landvætt. Þá verði einnig fullt af fólki í klappliðinu á hliðarlínunni. Fyrsta þrautin er Fossavatnsgangan sem fer fram á Ísafirði þann 2. apríl næstkomandi.

Landvættur hefur kynnt til leiks nýjan viðburð sem fer fram í fyrsta skipti í þann 30.apríl, Ultra-Landvætt. Hann fer fram á Akureyri en þar eru allar vegalengdir Landvætta framkvæmdar á einum degi. Ekki er hægt að skrá sig til leiks í ár en aðeins eitt sæti var í boði. Viðburðinn í ár er haldinn sérstaklega til styrktar Klöru.

Framtíðin óskrifuð

Aðspurð hvernig gengur í endurhæfingu hjá Klöru segir Ásthildur það ganga vel en að hún muni taka tíma, „framtíðin er pínulítið óskrifuð.“

Áhugasamir geta fylgst með áheita- og styrktarsíðu Klöru á Facebook undir nafinu, Áfram Klara. Þá mun hópurinn sem æfir og tekur þátt í Landvættum sýna frá ferlinu undir hastagginu #áframKlara. Þeir sem vilja geta styrkt Klöru og fjölskyldu hennar í gegnum eftirfarandi reikning:

Kennitala: 081114-2500

Banki: 0123-15-043225