Aðstandendur fjölskyldu Ameliu Önnu, sem er með ALL hvítblæði, hafa ákveðið að standa fyrir söfnun til stuðnings fjölskyldunnar en Amelia greindist með bráðaeitilfrumuhvítblæði, krabbamein í blóði, í febrúar 2021.
Amelia mun þurfa að vera í meðferð næstu tvö ár og munu foreldrar hennar þurfa að halda heimili á tveimur stöðum næstu mánuði á meðan því stendur með tilheyrandi kostnaði og ferðalögum.
„Ganga, skokka eða skríða“ þrjátíu kílómetra
Alfa Jóhannsdóttir og Sunna Björg Birgisdóttir standa fyrir söfnuninni en að því er kemur fram í lýsingu viðburðarins „Gengið fyrir Ameliu“ munu þær safna áheitum fyrir fjölskylduna með því að „ganga, skokka eða skríða litla Eyjarfjarðarhringinn,“ sem er þó um 30 kílómetrar að lengd.
„Við vitum það að framundan er mikil barátta með tilheyrandi erfiðleikum og áskorunum,“ segir í lýsingu viðburðarins. „Amelia er rétt að byrja sína vegferð og er allur stuðningur ómetanlegur í gegnum þetta mikilvæga ferli.“
Hægt að óska eftir lagi eða frumsömdum dans
Allir þeir sem hafa áhuga eru hvattir til að taka þátt í göngunni og safna áheitum, en ekki er nauðsyn að taka allan hringinn heldur geta þeir einnig tekið hluta úr leiðinni. „100 kr kílómeterinn. Það má heita á okkur helming leiðarinnar, hluta úr leið eða alla 30 kílómetrana!“
Þá verður einnig í boði að leggja aukalega til fyrir ýmsa hluti í göngunni, til að mynda fyrir sungin lög og frumsamda dansa, eða jafnvel að ganga kílómetra í hælum eða aftur á bak.
Áætluð brottför er klukkan hálf níu í fyrramálið og endar gangan á heimili Ameliu.
Viðburðinn má nálgast hér. Hægt er að leggja inn áheit á styrktarreikning fjölskyldunnar (rn. 0123 - 15 – 023016/kt. 301185-2439) og setja „Gengið fyrir Ameliu“ í skýringu.