Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði kallar á hjálp á Karolinafund og stefnir á að safna 70 þúsund evrum eða um tíu milljónum íslenskra króna, eftir að gríðarstórar aurskriður féllu á safnasvæði þess þann 18. desember í fyrra.
Að sögn Zuhaitz Akizu, forstöðumanns Tækniminjasafnsins, er tilgangur söfnunarinnar er að leita eftir aðstoð við að bjarga safninu.
„Þetta er hjálp svo við getum skipulagt og byrjað á hreinsun. Það er búið að ná mikið af safngripum og öðru úr drullunni og mikil vinna er fram undan á næstu mánuðum. Það eru mörg lítil skref, eða það sem mun líta út sem lítil skref, en í stóru myndinni munu þau skipta miklu um framtíðina þegar við förum að byggja safnið upp að nýju,“ segir Zuhaitz í samtali við Fréttablaðið.

Eyðileggingin gríðarleg
Á söfnunarsíðunni kemur fram að eyðileggingin á safninu sé gríðarleg. Tvö hús séu alveg eyðilögð auk þess sem aðrar fasteignir og safnasvæðið sjálft urðu fyrir umtalsverðum skemmdum. Þá varð stór hluti safnkostarins fyrir skriðunni.
Segir að margir ómetanlegir safnmunir með mikla og merka sögu séu horfnir að eilífu auk hinna sögulegu húsa. Mörgum gripum hafi verið bjargað í misgóðu ástandi og að fram undan sé mjög tímafrek vinna við að koma skipulagi á, hreinsa og skrá það sem fundið verður. Til þess að gera það þurfi þau að geta greitt fólki laun, komið upp nýju geymsluhúsnæði og keypt þau aðföng sem til þarf til að tryggja eins góða varðveislu og hægt er.
Þó um sé að ræða neyðarsöfnun leggja yfirvöld til meirihluta fjármagn í hreinsun og annað. Zuhaits segir að búið sé að skipa starfshóp sem eigi að meta hversu mikla aðstoð fólk þarf og svo hafi Þjóðminjasafnið metið ástandið á safninu.
„Því meira sem við gerum, því meira sjáum við sem þarf að gera. Þetta verður löng vegferð og þetta er aðeins upphafið,“ segir Zuhaitz.

Stórt sár í landslagi og samfélagi Seyðisfjarðar
Á söfnunarsíðunni á Karolinafund segir að mikið mildi sé að ekkert manntjón hafi verið í náttúruhamförunum en að þær skilji eftir stórt sár í landslagi og samfélagi Seyðisfjarðar.
„Þetta er stærsta skriða sem fallið hefur á byggð á Íslandi, hún hreif með sér fjölda húsa í kjölfar mestu úrkomu sem mælst hefur á landinu á jafn stuttum tíma. Þessi mikla úrkoma og hlýindi í desember eru mjög óvanaleg og má að öllum líkindum rekja til loftslagsbreytinga,“ segir á síðunni.