Tækni­minja­safn Austur­lands á Seyðis­firði kallar á hjálp á Karolina­fund og stefnir á að safna 70 þúsund evrum eða um tíu milljónum ís­lenskra króna, eftir að gríðar­stórar aur­skriður féllu á safna­svæði þess þann 18. desember í fyrra.

Að sögn Zu­haitz Akizu, for­stöðu­manns Tækni­minja­safnsins, er til­gangur söfnunarinnar er að leita eftir að­stoð við að bjarga safninu.

„Þetta er hjálp svo við getum skipu­lagt og byrjað á hreinsun. Það er búið að ná mikið af safn­gripum og öðru úr drullunni og mikil vinna er fram undan á næstu mánuðum. Það eru mörg lítil skref, eða það sem mun líta út sem lítil skref, en í stóru myndinni munu þau skipta miklu um fram­tíðina þegar við förum að byggja safnið upp að nýju,“ segir Zu­haitz í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hreinsunarstarf mun taka langan tíma á Seyðisfirði.
Mynd/Gunnar Gunnarsson

Eyðileggingin gríðarleg

Á söfnunar­síðunni kemur fram að eyði­leggingin á safninu sé gríðar­leg. Tvö hús séu alveg eyði­lögð auk þess sem aðrar fast­eignir og safna­svæðið sjálft urðu fyrir um­tals­verðum skemmdum. Þá varð stór hluti safn­kostarins fyrir skriðunni.

Segir að margir ó­metan­legir safn­munir með mikla og merka sögu séu horfnir að ei­lífu auk hinna sögu­legu húsa. Mörgum gripum hafi verið bjargað í mis­góðu á­standi og að fram undan sé mjög tíma­frek vinna við að koma skipu­lagi á, hreinsa og skrá það sem fundið verður. Til þess að gera það þurfi þau að geta greitt fólki laun, komið upp nýju geymslu­hús­næði og keypt þau að­föng sem til þarf til að tryggja eins góða varð­veislu og hægt er.

Þó um sé að ræða neyðar­söfnun leggja yfir­völd til meiri­hluta fjár­magn í hreinsun og annað. Zu­haits segir að búið sé að skipa starfs­hóp sem eigi að meta hversu mikla að­stoð fólk þarf og svo hafi Þjóð­minja­safnið metið á­standið á safninu.

„Því meira sem við gerum, því meira sjáum við sem þarf að gera. Þetta verður löng veg­ferð og þetta er að­eins upp­hafið,“ segir Zu­haitz.

Mynd tekin árið 2007 af safninu.

Stórt sár í lands­lagi og sam­fé­lagi Seyðis­fjarðar

Á söfnunar­síðunni á Karolina­fund segir að mikið mildi sé að ekkert mann­tjón hafi verið í náttúru­ham­förunum en að þær skilji eftir stórt sár í lands­lagi og sam­fé­lagi Seyðis­fjarðar.

„Þetta er stærsta skriða sem fallið hefur á byggð á Ís­landi, hún hreif með sér fjölda húsa í kjöl­far mestu úr­komu sem mælst hefur á landinu á jafn stuttum tíma. Þessi mikla úr­koma og hlýindi í desember eru mjög ó­vana­leg og má að öllum líkindum rekja til lofts­lags­breytinga,“ segir á síðunni.

Hér er hægt að kynna sér málið betur og styrkja söfnunina.