Víðir Víðisson hefur nú verið við leit að frænda sínum í Svíþjóð síðan á mánudag. Frændi hans féll af sæþotu undan strönd sænsku borgarinnar Borgholm á Öland í Svíþjóð seinni part á laugardag.
Frændi hans, sem er á fimmtugsaldri, hefur ekki enn fundist. Að sögn Víðir er aðkoma sænskra yfirvalda takmörkuð eins og er en greint var frá því í sænskum fjölmiðlum um helgina að það væri búið að leita á landi, sjó og í lofti.
„Þeir leituðu fyrsta daginn í einhverja fjóra tíma og tilkynntu svo konu mannsins að leitinni yrði hætt. Hún auðvitað var í gríðarlegu áfalli með og fór daginn eftir að leita sér aðstoðar hjá björgunarsveitum og öðru slíku,“ segir Víðir og að hún hafi þá fundið samtökin Missing people sem hafi þá byrjað að aðstoða hana við leitina.
„Þegar ég kem út þá voru þetta bara sjö til fimmtán manns að leita á svæðinu og þetta er rosalega stórt svæði. Auðvitað er alltaf vonarglæta að hann sé á lífi og maður horfir því á þessar aðstæður og er mjög hissa,“ segir Víðir.
Ekki með neina fagaðila til aðstoðar
Fjölskyldan hefur nú hafið söfnun til að geta haldið leitinni áfram en von er á fleira fólki til Svíþjóðar í dag. Víðir segir að peningurinn sem safnast fari í að greiða fyrir græjur eins og dróna og þyrlu sem þarf að nota við leitina og að allur afgangur fari inn á reikning konu frænda hans.
„Við erum að leita á fullu og það eru einhverjir Íslendingar að bætast í hópinn í dag,“ segir Víðir sem segir að hann hafi einnig fengið fjölmörg skilaboð frá ætli að lána tæki eins og dróna til að aðstoða við leitina og að vinkona konu frænda hennar hafi greitt fyrir þyrluflug sem að Víðir fer í dag til að leita að frænda sínum.
„En við erum ekki með neina fagaðila með okkur sem gerir þetta erfitt og við erum smá týnd í þessu Við erum búin að gera okkur besta og erum búin að þræða ströndina við eyjuna og hinum megin á landi. Við erum að vonast til þess að hann sé einhvers staðar búinn að reka upp á land. Maður vaknar á hverjum degi með ofboðslega mikla trú og svo er maður jafn vonlaus þegar maður fer að sofa á kvöldin,“ segir Víðir.
Hann á von á því að vera í Svíþjóð við leit fram yfir helgi og segir að öll hjálp sé vel þegin.
„Ég ætla að vera hérna að aðstoða við að stýra þessu. Er farin að þekkja aðstæður ágætlega eftir að hafa siglt þetta fram og til baka,“ segir Víðir.
Samkvæmt upplýsingum frá borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins er málið á þeirra borði og starfsfólk þeirra í sambandi við fjölskyldu mannsins.
Hægt er að styrkja leitina með því að leggja inn hér:
0549-14-401028
kt: 120989-2519
Hér að neðan er hægt að sjá fleiri myndir af svæðinu sem er verið að leita á en á þeim má sjá að um mjög stórt svæði er að ræða.

