Umboðsmaður barna vinnur nú að því að safna frásögnum barna af Covid í samstarfi við grunnskóla. Þetta er í fjórða sinn sem það er gert frá því faraldurinn hófst.
„Faraldurinn hefur nú enn og aftur tekið nýja stefnu en börn hafa sýnt ótrúlega þrautseigju á síðustu misserum og ítrekað lagað sig að breyttum aðstæðum,“ segir í tilkynningu á vef Umboðsmanni barna.
Áherslan í frásögnunum snýr nú sérstaklega að sóttvörnum og takmörkunum sem börn hafa þurft að búa við, svo sem sóttkví og einangrun. Einnig sýnatökur og bólusetningar.
„Við viljum koma sjónarmiðum barna á framfæri og í opinbera umræðu og viljum því vita hver er reynsla þeirra af umræddum ráðstöfunum og hverju þau vilja koma á framfæri til þeirra sem taka þær ákvarðanir sem að baki liggja,“ segir í tilkynningunni.