Til stendur að byggja nýtt hús sem hýsa mun starfsemi Kvennaathvarfsins. Fengist hefur fjármagn frá ríkinu upp á 60 milljónir króna en til stendur að fara í landssöfnun fyrir húsinu í byrjun október. Markmiðið er að safna 440 milljónum króna.

Að meðaltali dvelja um 130 konur í Kvennaathvarfinu á hverju ári og er meðaldvalartími þeirra þrjátíu dagar. Mörg börn dvelja að jafnaði í athvarfinu með mæðrum sínum. Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir að alltaf sé pláss fyrir konur sem leiti í athvarfið í húsinu, það sé þó löngu sprungið. „Við finnum alltaf pláss.“

Hún segist bjartsýn á að vel takist til við að safna fyrir nýja húsinu.„Við erum virkilega vongóð og finnum mikinn velvilja og þakklæti í okkar garð,“ segir Linda.

Hún segist vona að húsið verði tilbúið eftir þrjú ár en að erfitt sé þó að segja nákvæmlega til um hvenær það verði. „Við erum komin af stað með þetta verkefni. Erum byrjuð að teikna og nú bíðum við eftir deiliskipulagi,“ segir Linda en Kvennaathvarfið hefur nú þegar fengið vilyrði fyrir lóð undir húsið hjá borginni.

Staðsetning Kvennaathvarfsins er ekki opinber en Linda segir drauminn vera þann að konurnar sem þar dvelja upplifi sig það öruggar í nýja húsinu að staðsetning þess þurfi ekki að vera neitt leyndarmál.

„Það væri auðvitað draumurinn. Að öll starfsemin geti verið á sama stað og að öryggið sé þannig að það þurfi ekki að vera leyndarmál hvar við erum,“ segir hún.