Sævar Helgi Bragason, rithöfundur, dagskrárgerðarmaður og stjörnufræðikennari, hvetur landsmenn til að horfa til himins. Margir hafa eflaust tekið eftir því hversu fallegur morgun- og kvöldhimininn er þessa dagana.
Sævar Helgi birti áhugaverða færslu á Facebook-síðu sinni í morgun þar sem hann útskýrir þessa litadýrð sem sést hefur undanfarna daga.
„Morgun- og kvöldhiminninn er sérstaklega litríkur og glæsilegur þessa dagana, væntanlega þökk sé viðbótarvatnsgufu í heiðhvolfinu frá Hunga Tonga sprengigosinu í fyrra. Vatnsgufan hjálpar glitskýjum í heiðhvolfinu að verða til. Yfir háveturinn ríkir þar meira en 70 stiga frost sem kristallar vatnsgufuna. Þegar sólarljósið ferðast í gegnum kristallanna tvístrast það í liti sína og ljósadýrðin verður til,“ segir hann. Sævar segir að skýin séu þó líka merki um ákveðna vá.
„Þau eru orðin tíðari því heiðhvolfið er að kólna vegna hlýnunar veðrahvolfsins af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa, svo minni varmi berst upp á við. Auk þess leggja skýin sitt af mörkum til eyðingu ósons. Þarna uppi eru nefnilega enn ósoneyðandi efnin sem við notuðum áratugum saman í kæliskápana okkar og úðabrúsa.“