Sæ­var Daníel Kolanda­velu, sem segist vera slitna í sundur vegna al­var­legs stoð­kerfis­vanda, reynir að vera bjart­sýnn eftir að sér­fræðingar á Land­spítalanum höfðu sam­band og boðuðu hann á fund. Hann segist þó vera raun­sær, enda er hann lúinn og illa farinn eftir margra ára bar­áttu við heil­brigðis­kerfið.

Árið 2016 slasaðist Sæ­var. Hann er með skekkju í fæti sem veldur mis­jöfnu á­lagi í stoð­kerfinu sem olli því að stoð­kerfið var ó­með­vitað að skemmast. Á endanum segir hann eitt­hvað hafa slitnað í hálsinum á sér. „Þetta lítur ekki vel út. Við getum orðað það þannig,“ sagði Sæ­var í við­tali við Frétta­blaðið ný­lega.

Sæ­var á að fara í endur­mat á morgun vegna að­gerðar á fæti sem hann undir­gekkst á síðasta ári. „Það getur verið að það sé í raun og veru meiri skekkja á fætinum heldur en var upp­runa­lega á­ætlað,“ segir hann. Eftir endur­matið mun Sæ­var fara á fund með sér­fræðingum á spítalanum.

„Það var hryggja­sér­fræðingur sem hafði sam­band. Ég var beðinn um að taka saman öll gögn um mig og koma á fund á eftir endur­matið,“ segir Sæ­var, sem reynir að vera bjart­sýnn á fram­haldið.

„Ég vonast til þess að sam­talið sé gott við spítalann og jafn­vel að það sé hægt að setja for­dæmi um það að sjúk­lingar hafi rödd í þessu kerfi,“ segir Sæ­var, sem óttast þó hann að heil­brigðis­kerfið hér á landi geti ein­fald­lega ekki sinnt honum.

„Ég hef mikla trú á því að þessir ein­staklingar séu færir um að gera mjög fína hluti. En ég er hræddur um að Land­spítalinn geti ein­fald­lega sinnt máli eins og mínu, sem krefst meira en ein­hvers konar færi­bands­úr­vinnslu,“ segir Sæ­var.

Sæ­var segir að undan­farið hafi stöðugur straumur fólks, sem er í svipaðri stöðu og Sæ­var, sett sig í sam­band við hann.

„Allir virðast gera sér grein fyrir því að það sé veru­lega mikið að í inn­viðunum okkar. Það hefur verið stöðugur straumur í símann minn og heim­sóknir frá fólki sem er að lenda í því að kerfið sé hálf­partinn að mis­þyrma þeim og setja þau í skrítnar stöður,“ segir Sæ­var.

Þrátt fyrir margra ára bar­áttu við heil­brigðis­kerfið, þá ber Sæ­var heil­brigðis­starfs­fólki góða sögu. Hann óttast samt sem áður að kerfið geri þeim ekki kleift að að­stoða hann.

„Fólkið hefur á­vallt reynt að sína af sér góð vinnu­brögð og góð mann­leg sam­skipti, í kerfi sem er í bruna­rústum. Vonandi þá vakna upp ein­hverjar spurningar um hvort að það þurfi ekki betri að­búnað á spítalanum. Ég er bjart­sýnn á að starfs­fólk spítalans beiti sér til þess að að­stoða mig. En til­hugsunin um að þau lendi á enda­lausum hindrunum, það skelfur mig,“ segir Sæ­var.