Sævar Daníel Kolandavelu, sem segist vera slitna í sundur vegna alvarlegs stoðkerfisvanda, reynir að vera bjartsýnn eftir að sérfræðingar á Landspítalanum höfðu samband og boðuðu hann á fund. Hann segist þó vera raunsær, enda er hann lúinn og illa farinn eftir margra ára baráttu við heilbrigðiskerfið.
Árið 2016 slasaðist Sævar. Hann er með skekkju í fæti sem veldur misjöfnu álagi í stoðkerfinu sem olli því að stoðkerfið var ómeðvitað að skemmast. Á endanum segir hann eitthvað hafa slitnað í hálsinum á sér. „Þetta lítur ekki vel út. Við getum orðað það þannig,“ sagði Sævar í viðtali við Fréttablaðið nýlega.
Sævar á að fara í endurmat á morgun vegna aðgerðar á fæti sem hann undirgekkst á síðasta ári. „Það getur verið að það sé í raun og veru meiri skekkja á fætinum heldur en var upprunalega áætlað,“ segir hann. Eftir endurmatið mun Sævar fara á fund með sérfræðingum á spítalanum.
„Það var hryggjasérfræðingur sem hafði samband. Ég var beðinn um að taka saman öll gögn um mig og koma á fund á eftir endurmatið,“ segir Sævar, sem reynir að vera bjartsýnn á framhaldið.
„Ég vonast til þess að samtalið sé gott við spítalann og jafnvel að það sé hægt að setja fordæmi um það að sjúklingar hafi rödd í þessu kerfi,“ segir Sævar, sem óttast þó hann að heilbrigðiskerfið hér á landi geti einfaldlega ekki sinnt honum.
„Ég hef mikla trú á því að þessir einstaklingar séu færir um að gera mjög fína hluti. En ég er hræddur um að Landspítalinn geti einfaldlega sinnt máli eins og mínu, sem krefst meira en einhvers konar færibandsúrvinnslu,“ segir Sævar.
Sævar segir að undanfarið hafi stöðugur straumur fólks, sem er í svipaðri stöðu og Sævar, sett sig í samband við hann.
„Allir virðast gera sér grein fyrir því að það sé verulega mikið að í innviðunum okkar. Það hefur verið stöðugur straumur í símann minn og heimsóknir frá fólki sem er að lenda í því að kerfið sé hálfpartinn að misþyrma þeim og setja þau í skrítnar stöður,“ segir Sævar.
Þrátt fyrir margra ára baráttu við heilbrigðiskerfið, þá ber Sævar heilbrigðisstarfsfólki góða sögu. Hann óttast samt sem áður að kerfið geri þeim ekki kleift að aðstoða hann.
„Fólkið hefur ávallt reynt að sína af sér góð vinnubrögð og góð mannleg samskipti, í kerfi sem er í brunarústum. Vonandi þá vakna upp einhverjar spurningar um hvort að það þurfi ekki betri aðbúnað á spítalanum. Ég er bjartsýnn á að starfsfólk spítalans beiti sér til þess að aðstoða mig. En tilhugsunin um að þau lendi á endalausum hindrunum, það skelfur mig,“ segir Sævar.