Væri Sævar Marínó Cieselski á lífi ætti hann rétt á 385 milljónum í miskabætur að mati héraðsdómara sem dæmdi tveimur af fimm börnum hans sinn hlut þeirrar fjárhæðar með dómi í dag.

Um er að ræða 77 milljónir króna, sem þau Lilja Rún Jensen og Victor Ciesielski Jensen fá hvort um sig í bætur, með dómi Héraðs­dóms Reykja­víkur sem kveðinn var upp fyrr í dag, vegna sak­fellingar og frelsis­sviptingar föður þeirra í Guð­mundar- og Geir­finns­málum.

Gæsluvarðhald og afplánun Sævars stóð í átta og hálft ár.

„Þegar litið er til bóta­fjár­hæða sem á­kveðnar voru dómum Lands­réttar [í málum Guð­jóns og Kristjáns Viðars] þykja miska­bætur vegna sak­fellingar og frelsis­sviptingar Sæ­vars Marínós Ciecielski hefði hann verið á lífi, hæfi­lega á­kveðnar 385 milljónir króna.

Ríkið hefur þegar greitt 239 milljónir í bætur til að­stand­enda Sæ­vars en með dóminum er sú fjár­hæð hækkuð um 145 milljónir.

Þetta eru hæstu miskabætur sem ákvarðaðar hafa verið, en Kristján Viðar Júlíusson fékk 350 milljónir með dómi Landsréttar í fyrra.

„Í ljósi þess að stefn­endur eiga hvort um sig til­kall til 20 prósenta þeirrar fjár­hæðar þykja bætur til hvors þeirra hæfi­lega á­kveðnar 77.000.000 krónur að frá­dregnum þeim 44.800.000 sem [ríkið] hefur þegar innt af hendi til þeirra,“ segir í dóminum.

Byggt á fordæmi Landsréttar

Dómurinn byggir á for­dæmi Lands­réttar í málum Guð­jóns Skarp­héðins­sonar og Kristjáns Viðars Júlíus­sonar sem kveðnir voru upp í desember á síðasta ári.

Líkt og í dómum Landsréttar er meðal annars byggt á því að tímalengd einangrunar og aðstæður í Síðumúlafangelsi þar sem Sævar var hafður í gæsluvarðhaldi, hafi falið í sér ‘vanvirðandi meðferð‘ í skilningi 68. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu en ákvæðin fjalla um bann við pyndingum og ómannúðlegri meðferð eða refsingu.

Við mat á fjár­hæð bóta var litið til þess að Sæ­var þurfti um langt ára­bil að þola að hafa verið dæmdur sekur fyrir mann­dráp, til þeirrar and­legu og líkam­legu raunar sem sak­fellingin og frelsis­sviptingin olli honum, til þess að hann sætti van­virðandi með­ferð í gæslu­varð­haldi og að sak­fellingin var á grund­velli rann­sóknar og máls­með­ferðar sem braut gegn rétti hans til rétt­látrar máls­með­ferðar og af­leiðinga alls framan­greinds fyrir and­lega og líkam­lega heilsu hans.

Þá var ekki fallist á að kröfu ríkisins um að lækka ætti bætur til Sævars á grundvelli eigin sakar, en í dómunum segir að ríkið hafi ekki fært nægjanleg rök fyrir því að háttsemi þeirra við rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómi hafi leitt til sakfellingar þeirra í málinu á sínum tíma eða að Sævar hafi sjálfur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem bótakröfurnar eru reistar á. Því verði bótakröfur ekki lækkaðar á grundvelli eigin sakar.

Aðstandendur Tryggva bíða Hæstaréttar

Lands­réttur sýknaði ríkið í fyrra af bóta­kröfu að­stand­enda Tryggva Rúnars Leifs­sonar, með vísan til þess að þau gætu ekki átt aðild þar sem Tryggvi Rúnar var látinn áður en mál þessi voru tekin upp. Það mál býður nú úr­lausnar Hæsta­réttar.

Því er þó eins farið í málum barna Sæ­vars enda lést Sæ­var fyrir tæpum ára­tug en í þessu máli eru stefn­endurnir tvö af fimm börnum Sæ­vars en í máli Tryggva Rúnars stefnir dánar­bú hans ríkinu.

Í hinum nýuppkveðna héraðsdómi segir hins vegar um þetta að í lögum sem sett voru sérstaklega vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, að bætur skuli greiddar til eftirlitandi maka og barna þeirra sem látnir eru á sama grundvelli og til þeirra sýknuðu sem eru á lífi.

„Þegar litið er til athugasemda sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 128/2019 verður ráðið að markmið laganna hafi verið að skapa ótvíræðan bótagrundvöll fyrir hina sýknuðu og eftirlifanda maka, ef við ætti, sem og börn þeirra sýknuðu, sem látnir væru, vegna þeirrar einstöku réttarstöðu sem reis af sýknudómnum,“ segir í héraðsdómi.

Fallist er á hluta miskabótakröfunnar sem laut að sakfellingunni sjálfri og frelsissviptingunni en kröfum vegna annarra þátta hafnað vegna fyrningar. Þá var ríkið einnig sýknað af skaðabótakröfum fyrir fjártjón sem gerðar voru.