Sævar Daníel Kolandavelu, sem segist vera að slitna í sundur vegna alvarlegs stoðkerfisvanda, reynir að vera bjartsýnn eftir að sérfræðingar á Landspítalanum höfðu samband og boðuðu hann á fund. Hann segist þó vera raunsær, enda er hann lúinn og illa farinn eftir margra ára baráttu við heilbrigðiskerfið.

Fréttablaðið hefur fjallað ítarlega um málefni Sævars undanfarið. Hann er með skekkju á fæti sem veldur misjöfnu álagi í stoðkerfinu sem olli því að stoðkerfið var án þess að hann vissi að skemmast. Árið 2016 slasaði hann sig þegar hann fann smell í hálsinum. Hann er á örorkubótum, skortir fastan samastað og faglega umönnun. Þessa dagana býr hann hjá vinafólki og er bundinn rúminu sínu alla daga.

Sævar var nýlega boðaður á fund með sérfræðingum á Landspítalanum, í kjölfar endurmats vegna aðgerðar á fæti sem hann undirgekkst á síðasta ári.

„Ég var beðinn um að taka saman öll gögn um mig og koma á fund eftir endurmatið,“ segir Sævar, sem reynir að vera bjartsýnn á framhaldið.

„Ég vonast til þess að samtalið sé gott við spítalann og jafnvel að það sé hægt að setja fordæmi um það að sjúklingar hafi rödd í þessu kerfi,“ segir Sævar, sem óttast þó að heilbrigðiskerfið hér á landi geti einfaldlega ekki sinnt honum.

„Vonandi þá vakna upp einhverjar spurningar um hvort ekki þurfi betri aðbúnað á spítalanum. Ég er bjartsýnn á að starfsfólk spítalans beiti sér til þess að aðstoða mig. En tilhugsunin um að þau lendi á endalausum hindrunum skelfir mig,“ segir Sævar.