Um 350 atvinnuleitendur hafa sætt viðurlögum vegna höfnunar á starfstilboði eða á skylduvirkni á tímabilinu frá því átakið „Hefjum störf“ hófst, samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar.

Stofnunin sér um átakið fyrir hönd stjórnvalda og mörg dæmi eru um að fólk hafi verið svipt rétti til bóta þar sem viðkomandi hafnar starfi eða fleiru en einu starfi.

Vinnumálastofnun hefur tekið saman upplýsingar um fjölda þeirra sem hafa sætt sérstakrar athugunnar vegna höfnunar á starfstilboði frá 1. mars til loka maí 2021, sem er það tímabil sem átakið „Hefjum störf“ nær yfir.

Réttmæt höfnun

Svipað stór hópur sem sætti líka athugun hafði í flestum tilfellum verið komin í ný störf eða haft aðrar gildar ástæður fyrir að hafna starfi. Oftast er nefndur vinnutími utan hins hefðbundna dagvinnutíma og leikskólamál.

Hafni einstaklingur starfi sem er á öðru landsvæði en hann er búsettur á er ekki gerð krafa um flutninga og ekki er beitt viðurlögum í slíkum tilvikum.

Viðurlögin

Almenna reglan er sú að hafni einstaklingur starfi án fullnægjandi skýringa, geta greiðslur atvinnuleysisbóta fallið niður í 2 mánuði, hafni atvinnuleitandi starfi í annað sinn, geta greiðslur atvinnuleysisbóta fallið niður í 3 mánuði og hafni viðkomandi starfi í þriðja skipti, getur réttur hans til atvinnuleysisbóta fallið niður. Flestir falla undir fyrsta flokkinn, það er missa bótarétt í 2 mánuði, samkvæmt svari Vinnumálastofnunar.