Don­ald Trump, fráfarandi Banda­ríkja­for­seti, þrýsti á Brad Raffensperger, innanríkisráðherra Georgíríkis og flokksbróður í Repúblikaflokknum að snúa við úrslitum í ríkinu í forsetakosningum sem fóru fram í nóvember. Trump tapaði með litlum mun fyrir Joe Biden, fulltrúa Demókrata í ríkinu og hefur haldið því fram síðan að um svindl hafi verið að ræða.

The Washington Post hefur undir höndunum upptöku af símtali Trump við Raffensperger. Í símtalinu hvetur hann flokksbróður sinn til þess að finna þau atkvæði sem vanti upp á ríkinu til að snúa stöðunni í forsetakosningunum sér í vil.

Símtalið sem er um klukkutíma langt hefur ekki verið birt í heild sinni en Raffensperger á að hafa hafnað hugmyndum Trumps alfarið.

„Íbúar Georgíu er reiðir, Banda­ríkja­menn eru reiðir. Það er ekk­ert að því að segja að þú hafir end­ur­reiknað úr­slit­in“ á Trump að hafa sagt. Hann vildi einnig meina að það væri ekki fræðilegur möguleiki að hann hafi tapað í ríkinu.

Raffensperger á þá að hafa bent forsetanum á að hann væri að styðjast við gögn sem væru ekki rétt og að Biden hafi sigrað með 11.780 heiðarlegum atkvæðum.

Joe Biden tekur við embætti forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar næstkomandi.

Hægt er að hlusta á brot úr símtalinu hér að neðan.