Brynja Bjarnadóttir, 65 ára einstæð kona og sjúklingur, fékk heldur dapurlega jólagjöf frá leigufélaginu Ölmu í tölvupósti í lok nóvember þegar henni var tilkynnt um 75 þúsund króna hækkun á leiguverði á íbúð hennar við Hverfisgötu.

„Ég var nú búin að sætta mig vita að geta ekki haldið jól vegna peningaleysis en ég bjóst ekki við því að ég færi á götuna líka,“ segir Brynja í samtali við Fréttablaðið.

Boðið að endurnýja samninginn

Núverandi leigusamningur á íbúð Brynju, sem er í eigu íbúðafélagsins Alma, rennur út í lok janúar á næsta ári og barst henni þar með tölvupóstur frá félaginu þar sem sem henni er boðið að endurnýja samninginn.

Samkvæmt núverandi samningi hennar þá greiðir Brynja rúmlega 250 þúsund krónur á mánuði í leigu. Alma býður henni hins vegar endurnýjun á leigusamningi með 325 þúsund króna grunnleiguverði.

Brynja er öryrki og fær 325 þúsund krónur útborgaðar og segir hún það rétt duga fyrir húsaleigunni. Aðspurð um skýringarnar sem leigufélagið gefi vegna hækkunarinnar segir Brynja þær engar. „Þetta er bara peningagræðgi.“

Að sögn Brynju hefur hún alltaf staðið í skilum við leigufélagið. Hún fái húsaleigubætur en sé með lán, sjónvarp og önnur útgjöld líkt og venjuleg heimili og eftir standi 60 þúsund krónur til að lifa út mánuðinn. „Það hefur aldrei gengið upp,“ segir Brynja og bendir á að hún hafi bjargað sér með nýjum kortum allt þar til hún var komin í þrot. „Ég fór þá til skuldara og lét gera mig gjaldþrota eða hvað sem þeir gera.“

„Þetta er jólagjöfin mín í ár“

Brynja greindi frá málinu á Facebook-síðu sinni.

„Þetta er jólagjöfin mín í ár, hækkuðu leiguna um 75.000 úr 250.000 í 325.000 svo ég lendi á götunni um áramót, nema ég finni aðra íbúð. Er búin að vera í svo miklu kvíðakasti að ég get ekkert gert, og heilinn í er allur á hvolfi. Mér finnst ég fá allt of stuttan tíma til að leita af öðru húsnæði, allir mínir læknar eru hér í bænum, tala nú ekki um sálfræðinginn,“ skrifar Brynja í færslu sinni.

Brynja fékk tölvupóst frá leigufélaginu Ölmu 30. nóvember en skoðaði hann ekki almennilega fyrr en í gær. „Ég hélt ég þyrfti bara að endurnýja leigusamninginn. Svo fór ég að skoða þetta í gær og það var bara eins og að fá blauta tusku í andlitið.“

Sér fram á að sofa í bílnum

Aðspurð hvað taki við segir Brynja útlitið ekki bjart. „Ætli ég verði ekki ein af götufólkinu.“ Hún segist ekki eiga rétt á íbúð hjá borginni og þá sé hún með átta ára gamlan hund og þrettán ára gamlan kött sem hún muni aldrei láta frá sér.

„Ég á ágætis bíl svo ég get nú notað hann,“ segir Brynja sem gæti séð fram á að þurfa sofa í bílnum eftir janúar mánuði lýkur.

Brynja talaði við starfsmann leigufélagsins til að kanna hvort hún gæti fengið ódýrari íbúð. „Hann sagði að það væru ekki neinar ódýrari íbúðir og ég ætti bara að fylgjast með.“

Því miður ekki einsdæmi

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, vakti einnig athygli á máli Brynju á Facebook í kvöld. „Ég fékk póst frá leigutaka hjá Ölmu leigufélagi sem er vægast sagt sláandi,“ skrifar Ragnar Þór upphafi færslu sinnar en saga Brynju sé því miður ekki einsdæmi.

„Til að setja þetta í samhengi þyrftum við í verkalýðshreyfingunni að hækka laun um 133.000 kr. á mánuði til að hún gæti staðið undir þessum kostnaðarauka. Og þá er allt annað eftir sem hækkað hefur langt úr hófi fram.

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið hvað harðast gegn því að leigubremsu verði komið á til að sporna við gegndarlausri græðgi og því miskunnarleysi sem viðgengst á leigumarkaði,“ skrifar Ragnar Þór jafnframt og bætir við í lok færslunnar: „Ég velti því stundum fyrir mér hvert í fjandanum við erum komin sem samfélag.“