Þörf er á sæstreng milli Keflavíkur og Straumsvíkur til að tryggja raforkuflutning til Reykjaness, að mati Marinós G. Njálssonar, sérfræðings í áhættugreiningu, sem meðal annars hefur gert greiningu á Keflavíkurflugvelli. Háspennulínurnar séu í mun meiri hættu af eldgosum heldur en Reykjanesbrautin.

„Ef menn ætla að hafa áhyggjur af Reykjanesbrautinni þurfa menn fyrst að hafa áhyggjur af spennulínunum,“ segir Marinó en varað hefur verið við því að ef Reykjanesbrautin og Suðurstrandarvegurinn færu undir hraun væru flóttaleiðir og flugsamgöngur á Keflavíkurflugvelli í hættu.

Raforkulínurnar eru hins vegar allar sunnan við Reykjanesbrautina og mun nær gosbeltunum. Á Reykjanesi eru bæði Reykjanesvirkjun og Svartsengi en engu að síður eru um 70 prósent orkunnar aðflutt með Suðurnesjalínu.

Myndi hafa gríðarleg áhrif á flugvöllinn

Eldgosin núna hafa komið upp á miðju Reykjanesinu en gosbeltin eru nokkur. „Sagan segir okkur að eldvirknin færist til eftir Reykjanesskaganum. Á allri þeirri línu eru loftlínur Landsnets sem flytja rafmagn til Suðurnesja,“ segir Marinó. Erfiðara yrði að verja línurnar en Reykjanesbrautina og rafmagnstruflanir eða skortur myndi hafa gríðarlega mikil áhrif á alla starfsemi á Reykjanesi, þar á meðal flugvöllinn.

Til að tryggja raforkuflutning til Reykjanesskaga telur Marinó öruggast að leggja sæstreng milli Keflavíkur og Straumsvíkur í Hafnarfirði. Sú vegalengd er á bilinu 20 til 30 kílómetrar. Ólíklegra sé að sæstrengur á þessu svæði yrði fyrir áhrifum eldsumbrota en loftlínur á núverandi stað.

Marinó segir að með sæstreng til Keflavíkur væri hægt að svara raforkuþörf Suðurnesjamanna um langa hríð og þörfin sé mikil. Auk þess að vera ört vaxandi svæði, hvað mannfjölda varðar, þá er hugur í bæjarstjórn Reykjanesbæjar að reisa vetnisverksmiðju í Helguvík og óumflýjanleg rafvæðing í flugi kalli á mikið rafmagn til flugvalla.

Sjálfsagt dýrt en ekki óyfirstíganlegt

Aðspurður um kostnað segir Marinó að þær tölur liggi ekki fyrir. Framkvæmdin yrði sjálfsagt dýr en ekki óyfirstíganleg. Tveir sæstrengir eru í notkun hér á landi, Vestmannaeyjalína og Dalvíkurlína sem flytur rafmagn til Hríseyjar. Aðrar eyjabyggðir eru knúnar með dísilrafstöðvum. Þá hefur verið í umræðunni að leggja sæstreng frá væntanlegri Hvalárvirkjun á Ströndum til Ísafjarðar.

Marinó segir loftlínur vissulega ódýrari kost, en þó hugsanlega aðeins til skamms tíma ef illa fer. „Stundum er ódýrara að fara strax í framkvæmdir en að spara,“ segir hann.