Tveir sænskir bræður voru í dag ákærðir fyrir grófar njósnir gegn Svíþjóð, fyrir hönd Rússlands. Annar hafði verið háttsettur yfirmaður innar sænskrar stjórnsýslu og starfaði hann áður hjá sænsku leyniþjónustunni.
Sænska ríkissjónvarpið greinir frá því að njósnir bræðranna hafi staðið yfir á tímabilinu 28. september 2011 til 20. september árið 2021. Annar mannanna er þá einnig ákærður fyrir ranga meðhöndlun á leynilegum gögnum.
Saksóknari í máli bræðranna segir rannsókn málsins hafa verið flókna en að frumrannsókn hafi leitt til handtöku, gæsluvarðhalds og nú ákæru á hendur tveggja sænskra ríkisborgara.
Bræðurnir hafa setið í gæsluvarðhaldi í rúmt ár. Þeir fæddust í Íran en ólust upp í Svíþjóð og eru með ríkisborgararétt þar. Samkvæmt ákærunni eru mennirnir sakaðir um að hafa verið rússnesku leyniþjónustunni til aðstoðar við að afla, framsenda og birta upplýsingar í óleyfi.
Upplýsingarnar sem bræðurnir sendu eru taldar hafa getað skaðað öryggi Svíþjóðar.
Bræðurnir, sem eru á fertugs- og fimmtugsaldri neita sök í málinu. „Því er alfarið hafnað að eitthvað rangt eða saknæmt hafi gerst, hann hefur stöðugt reynt eftir bestu getu að leysa erfið verkefni á sem bestan hátt,“ sagði verjandi eldri bróðurins.