Samkvæmt rannsóknargögnum sem lekið var til alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna og þau hafa undir höndum greiddi símafyrirtækið Ericsson hryðjuverkasamtökunun ISIS fyrir að smygla tækjabúnaði inn á svæði undir stjórn ISIS. Spænska dagblaðið El País greindi frá þessu í gær.

Í frétt El País segir frá grunsamlegum tuga milljóna dollara greiðslum frá Ericsson til að viðhalda starfsemi fyrirtækisins í Írak. Höfuðstöðvar Ericsson eru í Svíþjóð.

Skjölin sýni mynstur af mútum og spillingu sem hafi verið svo útbreidd að ekki sé hægt að gera grein fyrir milljónum dollara á þeim tíma sem Ericsson reyndi að halda farsímakerfum sínum gangandi í einu spilltasta landi heims. Um sé að ræða tímabilið frá 2011 til 2019.

Fram kemur að viðskipti Ericsson í Írak hafi verið háð milligöngu manna með tengsl inn í stjórnmálalífið og óvottuðum undirverktökum. Alls kyns leynisamningar og uppskrúfaðir reikningar, falsaðar fjárhagsyfirlýsingar og greiðslur til „ráðgjafa“ með óræða starfstitla hafi sett svip sinn á viðskiptin.

Segir El País að Börje Ekholm, stjórnarformaður Ericsson, hafi aðeins viljað ræða við þá fjölmiðla sem ekki hafi rannsóknarskýrsluna sem lekið var undir höndum.

Ekholm hafi sagt við sænskt dagblað að símafyrirtækið kunni að hafi innt ólöglegar greiðslur af hendi og oft átt í vandræðum með að átta sig á hverjir voru viðtakendur fjárins.