Fyrirtækið NeuraLink, sem er í eigu Elon Musk, hefur sótt um leyfi í Bandaríkjunum til að prófa nýja tækni sína á fólki. Um er að ræða lítinn tölvukubb sem er tengdur við heilann og getur þannig haft bein áhrif á taugafrumur hans.

Geti á endanum tekið yfir heila fólks

Tækið hefur nú þegar verið prófað á apa sem gat þá stýrt tölvu með því að nota hugsanir sínar. Fyrirtækið segist þá vilja einblína á að aðstoða fólk með alvarlega taugasjúkdóma en að framtíðarmarkmiðin felist í að skapa einhvers konar ofurmannlega heilastarfsemi.

Tækið, sem fyrirtækið hefur þróað, er örsmátt og í því eru yfir 3.000 lítil rafskaut sem tengd eru litlum þráðum, sem eru þynnri en mannshár. Hver þráður getur svo fylgst með virkni um þúsund taugafruma í heilanum. Fyrirtækið segir það kost tækisins að það getur einblínt á mjög afmörkuð svæði heilans, sem gerir notkun þess öruggari.

Tækni fyrirtækisins hefur verið prófuð á apa með góðum árangri.

NeuraLink hefur þá ekki tilgreint hvernig hugbúnaðurinn getur túlkað heilastarfsemi mannsins eða hvernig tækið getur örvað heilasellurnar. „Það er ekki eins og við séum bara skyndilega komin með þessa ótrúlegu tækni og getum tekið yfir heila fólks,“ sagði Elon Musk á kynningu fyrirtækisins á búnaðinum. „Það mun taka mjög langan tíma að komast þangað.“

Hann sagði þó að búnaðurinn myndi á endanum gera þeim kleift sem vildu að vera með eins konar innbyggða gervigreind í heilanum. Hefur hann þá einnig gefið í skyn að slíkt myndi eyða mannkyninu eins og við þekkjum það. Ný „ofurgreind“ yrði þá til í heila fólks, sem það í raun hefur nú þegar í símum sínum, sagði hann í kynningunni.

Fyrirtækið þarf að tækla siðferðisleg vandamál

Sérfræðingur hjá NASA sem var viðstaddur kynninguna, Krittika D'Silva sagði þá að NeuraLink væri með spennandi hugmyndir í vinnslu. „En þessi áform munu krefjast margra ára vinnu til að tækla bæði tæknileg og siðferðisleg vandamál,“ sagði hún eftir kynninguna. „Þetta yrði risaskref í rétta átt í baráttunni við ýmsa sjúkdóma eins og flogaveiki og Parkinson.“

En NeuraLink er ekki eina fyrirtækið sem er að þróa tækni til að hafa áhrif á taugafrumur mannsheilans. Fyrirtækið Kernel, sem er í eigu tæknifrumkvöðulsins Bryan Johnson, vinnur að svipuðum hlutum í tilraun til að þenja út skilvit mannsins.

Frétt BBC.