Alþjóðleg rannsókn sýnir að sæðistala karla úti um allan heim hefur helmingast á undanförnum fjörutíu árum. Fyrri rannsókn sama teymis, frá árinu 2017, sýndi að sæðistalan hefði lækkað í hinum vestræna heimi. Það er Evrópu, Norður-Ameríku og Eyjaálfu. Framhaldsrannsóknin, sem birt var í tímaritinu Human Reproduction hjá Oxford-háskóla, sýnir sömu niðurstöðu í Afríku, Asíu og Rómönsku Ameríku.

Fyrir um hálfri öld mældist að meðaltali 101 milljón sáðfruma í hverjum millilítra af sæði en nú aðeins 49 milljónir. Reiknað er með að sæðistalan hafi að meðaltali fallið um 1,16 prósent á ári frá árinu 1972. Lækkunin er hins vegar sífellt að aukast og ef litið er til tímans frá aldamótum er lækkunin 2,64 prósent á ári.

„Þessi lækkun sýnir augljóslega minnkandi getu mannkyns til að fjölga sér,“ sagði Hagai Levine, prófessor við hebreska háskólann í Jerúsalem, sem leiddi rannsóknina, við breska blaðið The Guardian.

Ekki er að fullu vitað hvað það er sem veldur hinni lækkandi sæðistölu karla, en í rannsókninni var tekið tillit til hluta eins og aldurs karla og hversu langur tími hafði liðið frá síðasta sáðláti.

Líkur hafa verið leiddar að því að umhverfislegir þættir geti spilað inn í þróunina og hafi áhrif á karla allt frá því í móðurkviði. Þá hafa lífstílsþættir einnig verið nefndir sem orsök, svo sem ofþyngd, hreyfingarleysi og neysla vímuefna af ýmsum toga.