Sænska heil­brigðis­kerfið stendur nú frammi fyrir bráðum sæðis­skorti vegna þess hversu fáir hafa gefið sæði í heims­far­aldrinum. Þetta hefur valdið því að þurft hefur að stöðva tækni­frjóvganir í nokkrum af stærstu borgum Sví­þjóðar svo sem Gauta­borg og Mal­mö og hefur bið­tíminn eftir gjafa­sæði lengst frá sex mánuðum að meðal­tali yfir í um þrjá­tíu mánuði. Frétta­stofa Reu­ters greindi meðal annars frá þessu.

Snorri Einars­son, yfir­læknir hjá Livio Reykja­vík, segir að þessi skortur muni ekki koma til með að hafa á­hrif á tækni­frjóvganir á Ís­landi jafn­vel þó svo að flest gjafa­sæði hér sé inn­flutt.

„Gjafar eru tak­mörkuð auð­lind, og af því að þeir eru tak­mörkuð auð­lind þá er eftir­spurnin tölu­verð og þetta á í raun bæði við um eggja- og sæðis­gjafa,“ segir Snorri.

Livio Reykja­vík er partur af Nor­rænni sam­steypu sem saman­stendur af níu deildum en sjö af þeim eru staddar í Sví­þjóð og ein í Osló. Sam­steypan tók á það ráð að stofna eggja- og sæðis­banka fyrir tveimur árum til að taka á eggja og sæðis­skorti og segir Snorri það hafa að mestu leyti gengið vel.

„Við lentum í því hérna að eggja­gjafir duttu svo­lítið niður, því miður, og bið­listinn er orðinn svo­lítið langur meðal annars út af CO­VID. Við erum að vinna að því hörðum höndum núna að vinna það upp og það gengur á­gæt­lega. En við erum ekki með neinn skort á sæðis­gjöfum, við erum með að­gang að sæðis­banka í Dan­mörku og við erum með að­gang að þessum sænska sæðis­banka og vegna þessa á­taks þá hefur það gengið vel og við getum nýtt okkur það,“ segir Snorri.

Hingað til hefur ekki verið tekið á móti gjafa­sæði á Ís­landi en Snorri segir á­ætlanir um að koma slíkri þjónustu upp hér á landi vera langt komnar hjá Livio.

„Við erum núna að fara að vinna í því að taka á móti ís­lenskum sæðis­gjöfum af því að eftir­spurnin er mikil,“ segir Snorri.

Sýnir fram á mikil­vægi þess að hafa fjöl­breytt heil­brigðis­kerfi

Eins og stendur er Livio eina heil­brigðis­stofnunin hér á landi sem fram­kvæmir tækni­frjóvganir en slík starf­semi hefur verið í einka­reknu formi frá því hún fluttist frá Land­spítalanum árið 2004.

Ljóst er að slíkar með­ferðir eru langt því frá ó­keypis en sam­kvæmt verð­skrá Livio kostar ein með­ferð af glasa­frjóvgun 480.000 krónur. Sjúkra­tryggingar Ís­lands niður­greiða þó með­ferðir um allt að 65 prósent af upp­settu kostnaðar­verði.

Sam­kvæmt frétt Reu­ters hefur sæðis­skorturinn í Sví­þjóð haft lítil á­hrif á einka­reknar heil­brigðis­stofnanir þar í landi sem hafa getað komist hjá skorti með því að kaupa sæði er­lendis frá. Snorri segir þetta sýna fram á mikil­vægi þess að bjóða upp á fjöl­breytt heil­brigðis­kerfi.

„Maður getur sagt að þarna komi í ljós styrkur einka­rekinnar heil­brigðis­starf­semi vegna þess að þessi há­skóla­sjúkra­hús, þau þurfa náttúr­lega að taka á bráða­vanda­málum og þurfa að for­gangs­raða á meðan á CO­VID stendur og þurftu þess vegna að loka á svona starf­semi, á meðan að einka­rekna starf­semin hefur getað haldið á­fram að sinna þessu hlut­verki. Þarna kemur í ljós styrkur þess að hafa fjöl­breytt heil­brigðis­kerfi,“ segir Snorri að lokum.