Sænska heilbrigðiskerfið stendur nú frammi fyrir bráðum sæðisskorti vegna þess hversu fáir hafa gefið sæði í heimsfaraldrinum. Þetta hefur valdið því að þurft hefur að stöðva tæknifrjóvganir í nokkrum af stærstu borgum Svíþjóðar svo sem Gautaborg og Malmö og hefur biðtíminn eftir gjafasæði lengst frá sex mánuðum að meðaltali yfir í um þrjátíu mánuði. Fréttastofa Reuters greindi meðal annars frá þessu.
Snorri Einarsson, yfirlæknir hjá Livio Reykjavík, segir að þessi skortur muni ekki koma til með að hafa áhrif á tæknifrjóvganir á Íslandi jafnvel þó svo að flest gjafasæði hér sé innflutt.
„Gjafar eru takmörkuð auðlind, og af því að þeir eru takmörkuð auðlind þá er eftirspurnin töluverð og þetta á í raun bæði við um eggja- og sæðisgjafa,“ segir Snorri.
Livio Reykjavík er partur af Norrænni samsteypu sem samanstendur af níu deildum en sjö af þeim eru staddar í Svíþjóð og ein í Osló. Samsteypan tók á það ráð að stofna eggja- og sæðisbanka fyrir tveimur árum til að taka á eggja og sæðisskorti og segir Snorri það hafa að mestu leyti gengið vel.
„Við lentum í því hérna að eggjagjafir duttu svolítið niður, því miður, og biðlistinn er orðinn svolítið langur meðal annars út af COVID. Við erum að vinna að því hörðum höndum núna að vinna það upp og það gengur ágætlega. En við erum ekki með neinn skort á sæðisgjöfum, við erum með aðgang að sæðisbanka í Danmörku og við erum með aðgang að þessum sænska sæðisbanka og vegna þessa átaks þá hefur það gengið vel og við getum nýtt okkur það,“ segir Snorri.
Hingað til hefur ekki verið tekið á móti gjafasæði á Íslandi en Snorri segir áætlanir um að koma slíkri þjónustu upp hér á landi vera langt komnar hjá Livio.
„Við erum núna að fara að vinna í því að taka á móti íslenskum sæðisgjöfum af því að eftirspurnin er mikil,“ segir Snorri.
Sýnir fram á mikilvægi þess að hafa fjölbreytt heilbrigðiskerfi
Eins og stendur er Livio eina heilbrigðisstofnunin hér á landi sem framkvæmir tæknifrjóvganir en slík starfsemi hefur verið í einkareknu formi frá því hún fluttist frá Landspítalanum árið 2004.
Ljóst er að slíkar meðferðir eru langt því frá ókeypis en samkvæmt verðskrá Livio kostar ein meðferð af glasafrjóvgun 480.000 krónur. Sjúkratryggingar Íslands niðurgreiða þó meðferðir um allt að 65 prósent af uppsettu kostnaðarverði.
Samkvæmt frétt Reuters hefur sæðisskorturinn í Svíþjóð haft lítil áhrif á einkareknar heilbrigðisstofnanir þar í landi sem hafa getað komist hjá skorti með því að kaupa sæði erlendis frá. Snorri segir þetta sýna fram á mikilvægi þess að bjóða upp á fjölbreytt heilbrigðiskerfi.
„Maður getur sagt að þarna komi í ljós styrkur einkarekinnar heilbrigðisstarfsemi vegna þess að þessi háskólasjúkrahús, þau þurfa náttúrlega að taka á bráðavandamálum og þurfa að forgangsraða á meðan á COVID stendur og þurftu þess vegna að loka á svona starfsemi, á meðan að einkarekna starfsemin hefur getað haldið áfram að sinna þessu hlutverki. Þarna kemur í ljós styrkur þess að hafa fjölbreytt heilbrigðiskerfi,“ segir Snorri að lokum.