SÁÁ segir í yfirlýsingu að aukið aðgengi að áfengi, með bæði heimsendingu og möguleika áfengisframleiðenda að selja vörur á framleiðslustöð, muni auka á áfengisvanda í samfélaginu. Þau segja að á skömmum tíma hafi aðgengi að áfengi stóraukist og telja að það gangi þvert á stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum.

„Sú stefna snýst um að takmarka og stýra aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum til að draga úr skaðlegum afleiðingum neyslunnar. Það er sterkasta vopnið í forvörnum,“ segir í yfirlýsingunni.

Áfengi engin venjuleg neysluvara

Þar segir enn fremur að áfengi sé engin venjuleg neysluvara heldur sé það löglegt vímuefni og að ef stjórnvöld ætli að láta af aðhaldssamri stefnu í áfengis- og vímuvörnum, þá verða þau að vera viðbúin afleiðingunum.

„Þegar hægt er að fá áfengi sent heim hvenær sem er sólarhringsins eykst skaðleg neysla þess hjá hluta notenda. Slík neysla hefur alvarleg áhrif á lýðheilsu og er einn af helstu áhættuþáttunum sem leiða til heilsufarsvanda, ótímabærra dauðsfalla og þróunar langvinnra sjúkdóma. Talið er að allt að 20% fullorðinna eigi á hættu að þróa með sér fíknisjúkdóm einhvern tímann á lífsleiðinni,“ segir í yfirlýsingunni og að hjá meirihluta þeirra sem komi í áfengismeðferð á Vogi sé áfengi aðalvímugjafinn og að meirihluti þeirra drekki daglega.

„Heimsending áfengis allan sólarhringinn er aðeins til þess fallin að stækka þennan hóp og auka vandann,“ segir í yfirlýsingunni og að sú mikla fjölgun söluaðila sem nú blasi við skapi samkeppni um hylli áfengiskaupenda, stuðli að verðlækkun og auki þannig neysluna.

„Það er öfugþróun sem mun hafa skaðlegar afleiðingar.“