Kristrún Heimisdóttir, nýr varaforseti kirkjuþings Þjóðkirkjunnar, segir enga skilgreiningu á því hvað sé trúfélag og að það sé í raun galopið hvað skilgreinist sem trúfélag hér á landi. „Mér finnst þetta ekki frambærilegt og ekki hægt að hafa þetta svona,“ segir Kristrún þegar hún útskýrir hvað hún átti við með orðum sínum um að trúfélög væru bastarður í ræðu sinni á nýafstöðnu kirkjuþingi.

Kristrún var í viðtali í útvarpsþættinum Bítið á Bylgjunni í morgun.

„Mér finnst Zúistamálið vera hneyksli og dæmi um það hvað getur gerst þegar lög eru mótuð með þessum hætti,“ segir Kristrún jafnframt.

Fréttablaðið greindi frá því fyrr í vikunni að Kristrún sagði lög um trúfélög vera „bastarð“ og að búið væri að banna öllum börnum að hafa aðgang að Jesú Kristi. Þetta var meðal þess sem kom fram í ræðu Kristrúnar á kirkjuþinginu.

Kristrún segir viðbrögðin hafa verið mjög jákvæð í sinn garð eftir ræðuna og fréttina. Hún hafi fengið geysilega mikil viðbrögð, mun meiri en hún hefði búist við.

Börn heyri ekki sögurnar

Kristrún segir undanhald kirkjunnar mega rekja að stórum hluta til óróatímans eftir hrun í kringum 2010 til 2011. Þá hafi Reykjavíkurborg tekið þá ákvörðun um að setja nýjar hömlur á það hvernig kristin kirkja er kynnt fyrir börnum.

Sem dæmi segir Kristrún ekki mega auglýsa eða segja frá sunnudagaskóla. „Það er eiginlega ekki hægt lengur segja prestarnir mér. Það má ekki,“ segir Kristrún og bætir við að það sé slæmt að börn heyri ekki sögurnar sem kenndar eru þar.

Íslensk menning sé „gegnsósa“ af öllum táknum og sögum úr trúnni. „Það sem gerist er það að krakkarnir læra ekki að skilja alla þessa menningarlegu þætti í kringum okkur,“ segir Kristrún.

Kristrún nefnir ofbeldi barna sem hefur verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarið og segir býsna mikið tapast þegar börnin læra ekki sögurnar. Hún tók sem dæmi: „Sá yðar sem er syndlaus kasti fyrsta steininum. Sko krakkar sem ekki hafa fengið þetta útskýrt þau skilja ekki neitt þessa setningu.“

Að sögn Kristrúnar skilji börn ekki hvað þetta þýði, „syndir, hvað er það sundbolur.“ Hún heldur áfram: „Sá ykkar sem er í sundbol hann fari og kasti steini.“

Áhrifavaldarnir Jesú Kristur og TikTok

Í ræðu sinni á kirkjuþingi sagði Kristrún meðal annars að alltaf þegar hún gæfi fermingarbörnum gjafir léti hún fylgja þau orð að besti áhrifavaldurinn sé Jesús Kristur. „Og hvers vegna er búið að banna öllum börnum á Íslandi að hafa aðgang að þeim áhrifavaldi? En öll mega þau horfa á TikTok?“

Kristrún notaði andstæðurnar, áhrifavaldinn Jesú Krist og áhrifavaldinn TikTok, einnig í viðtalinu í Bítinu í morgun. Hún segist ekki skilja hvenær Jesú Kristur varð skaðlegur fyrir börn. Að sögn Kristrúnar er TikTok fullt af hryllingi, miðill sem sé í eigu eða að minnsta kosti nátengdur kínverska kommúnista flokknum. „Hvað erum við að bjóða börnum upp á?“

Hún spyr hvar séu færð rök fyrir því af Jesú Kristur sé skaðlegur fyrir börn. „Mér finnst mjög erfitt að skilja af hverju það á að vera þannig á Íslandi.“