Eitt og hálft ár er nú liðið frá því að fyrsta tilfelli Covid-smits greindist hér á landi, en frá þeim tíma hafa hátt í 11 þúsund manns smitast og 32 látist.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist ekki hafa haft neinar fastmótaðar hugmyndir þegar Covid kom hingað til lands, um hversu lengi við myndum glíma við vágestinn. Hann hafi þó búist við að það tæki einhvern tíma.

„Á meðan maður þarf að halda faraldrinum niðri, á meðan maður getur ekki bara leyft honum að fara óhindrað um samfélagið, að þá erum við að teygja þetta á langinn og það sá maður fyrir strax í byrjun,“ segir Þórólfur.

„Þannig að ég sá jú fyrir mér að þetta gæti dregist í eitt til tvö ár, en nákvæmlega í hvaða formi var náttúrlega ekki ljóst.“

Þórólfur vísar til þess að þegar bóluefnin komu hafi farið að birta til og vonir bundnar við að við værum á lokasprettinum. „Svo kemur þetta Delta-afbrigði sem breytir myndinni svolítið.“

Fjórða bylgja faraldursins hófst í júlí síðastliðnum þar sem gripið var til hertra aðgerða enn á ný og var ljóst að veiran væri ekki að fara að gefast upp.

Aðspurður um hvar hann haldi að við munum standa þegar tvö ár eru liðin frá fyrsta smitinu hér á landi segir Þórólfur það ómögulegt að segja, það fari allt eftir því hvernig veiran hagar sér í framtíðinni.

„Það eru margir óvissuþættir í þessu og við þurfum bara að halda áfram að læra, safna gögnum, sjá hvað við erum að gera og breyta þá um stefnu og nálgun eftir því hvað gögnin eru að segja okkur.“