Samtök atvinnulífsins munu í kringum hádegi afhenda stéttarfélaginu Eflingu stefnu vegna niðurstöðu atkvæðagreiðslu félagsins um verkfall. Greint var frá því seint í gærkvöldi að af 287 sem voru á kjörskrá voru 189 sem greiddu atkvæði að þessu sinni og var kjörsókn því 66 prósent. Af þeim voru sjö sem tóku ekki afstöðu.

Tæplega tveir þriðju greiddu atkvæði með verkfallstillögunni eða 65,61 prósent á meðan tæpur þriðjungur, 30,69 prósent greiddu atkvæði á móti tillögunni.

Halldór Benjamín segir í samtali við Fréttablaðið að samtökin telji verkfallsboðunina ólögmæta og að þess vegna stefni þau félaginu fyrir Félagsdóm. Hann segir engar málsaðstæður hafa verið gefnar upp sem stendur en að það verði hægt að kynna sér þær þegar stefnan verður opinberlega birt um hádegisbil.

Halldór Benjamín og samninganefnd Eflingar mætast í Karphúsinu fyrr í mánuðinum.
Fréttablaðið/Ernir

Hvað varðar niðurstöðu kosningarinnar segir Halldór Benjamín

„Forysta Eflingar hlýtur að vera felmtri sleginn yfir þessari niðurstöðu. Það að aðeins 124 af 284 samþykkja verkfall, að 43 prósent atkvæðabærra manna segja já við verkfallsboðun í hópi sem var handvalinn af forystu Eflingar með það fyrir augnamiði að knýja á um verkfall er eins veik niðurstaða og nokkur hefði getað þorað að vona. Þetta er skrumskæling á vinnulöggjöfinni. Hérna eru 124 einstaklingar að kjósa burt afturvirkni kjarasamninga fyrir 21 þúsund manns sem starfa á kjarasamningi Eflingar og SA.“

Telur meirihluta innan félagsins

Spurður hvort hann telji ekki meirihluta innan alls félagsins fyrir verkfalli bendir Halldór Benjamín á að félagar SGS sem sinni samskonar störfum og félagsfólk Eflingar hafi samþykkt samskonar samning með yfirgnæfandi meirihluta.

„Í staðinn berst forysta Eflingar um á hæl og hnakka að koma í veg fyrir að lögmæt miðlunartillaga ríkissáttasemjara nái fram að ganga og það verður dómstóla að úrskurða um það og ég er ekki í neinum vafa um það að dómur mun falla gegn Eflingu í því máli og að endingu munu félagsmenn Eflingar fá að kjósa um miðlunartillöguna sem ríkissáttasemjara hefur lagt fram,“ segir Halldór.

Afturvirkni aldrei aftur á borðið

Aðspurður hvort að það sé einhver möguleiki á því að afturvirkni samningsins fari aftur á samningaborðið í samningaviðræðum samtakanna við Eflingu segir Halldór Benjamín það af og frá.

„Undir engum kringumstæðum í samningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins kemst hún aftur á borðið. Það útiloka ég með öllu. Hún er farin út af borðinu og um hana verður ekki samið við Eflingu að svo komnu,* segir Halldór Benjamín að lokum.

Með samstöðu að vopni

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar sagði félagsfólk sitt hafa sýnt mikið hugrekki með því að kjósa með verkfalli.

„Þau tóku ákvörðun sem frjálsar, fullorðnar manneskjur um að standa saman og með samstöðuna að vopni senda þau skilaboð að enginn getur komið í veg fyrir að þau berjist fyrir því að fá mannsæmandi laun fyrir sína ómissandi vinnu. Ekki SA, ekki ríkissáttasemjari, og ekki hinir háu herrar stjórnarráðsins. Enginn,“ sagði Sólveig Anna eftir að greint hafði verið frá niðurstöðu kosningarinnar í gærkvöldi á Facebook-síðu sinni. Færsluna er hægt að lesa hér að neðan.