Einstaklingurinn sem lést af völdum COVID-19 á síðasta sólarhring var sjúklingur á Landakoti. Þetta staðfestir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við Vísi.

Greint var frá andlátinu fyrr í dag en um er að ræða sjúkling á níræðisaldri. Hafa nú tólf einstaklingar látist í faraldrinum hér á landi.

Tilfellið tengist stórri hópsýkingu sem uppgötvaðist á Landakoti fyrir helgi en fram kom í hádegisfréttum RÚV í dag að rekja megi um 120 sýkingar til hópsmitsins.

58 sjúklingar liggja nú inni á Landspítala vegna COVID-19 og hafa aldrei verið fleiri á spítalanum með sjúkdóminn. Er einn þeirra á gjörgæsludeild í öndunarvél.

86 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og hafa tilfellin ekki verið fleiri í rúmar tvær vikur.

Ekki náðist í Þórólf við vinnslu fréttarinnar en hann sagði í samtali við Vísi að það kæmi sér ekki á óvart þó fleiri sjúklingar á Landakoti myndu látast úr sjúkdómnum.

Þar væri um að ræða viðkvæma hópa og einstaklinga sem fari alla jafna verst út úr sýkingunni.