Magnús Leopolds­son, Einar Bolla­son og Valdimar Ol­sen sem kenndir eru við Klúbbinn og sátu í gæslu­varð­haldi í 105 daga vegna rangra sakar­gifta í Guð­mundar-og Geir­finns­málinu segjast ekki fá séð að unnt sé að fallast á bætur til handa Kristjáni Viðari Viðars­syni og ættingjum Sæ­vars Marinós Ciesi­elski. Þetta kemur fram í um­sögn þeirra um frum­varp for­sætis­ráð­herra um heimild fyrir bóta­greiðslum vegna sýknu­dóms Hæsta­réttar.

Í um­sögn sinni segjast þre­menningarnir draga það mjög í efa „að fólk sé al­mennt til­búið til slíkra falskra játninga þótt það sitji í gæslu­varð­haldi.“ Þeir segjast ó­líkt öðrum tala af biturri eigin reynslu sem þeir segja örugg­lega meira virði en hug­myndir sjálf­skipaðra fræði­manna „sem virðast geta dregið á­lyktanir af endur­teknum lygum.“

Þeir segja jafn­framt enn fjar­stæðu­kenndara að ætla að greiða Erlu Bolla­dóttur bætur, þar sem dómur um hennar þátt í fyrr­greindum af­brotum stendur ó­ra­skaður.

Segja lausnina á ráð­gátunni felast í hinum röngu sakar­giftum

„Sá sem ber ein­hvern röngum sökum gerir það vegna þess að hann hefur eitt­hvað að fela,“ segir því næst í um­sögninni. Þar segir að þeim þyki hug­myndin um að ein­stak­lingur sem sitji sak­laus í gæslu­varð­haldi taki upp á því að játa á sig rangar sakir og beri svo í leiðinni rangar sakir upp á fjölda fólks að beiðni lög­reglunnar „full­komin fjar­stæða.“

„Rétt þykir að taka fram að aldrei læddist sú hug­mynd að nokkrum okkar að bera sakir á sak­laust fólk um leið og við kepptumst við að sanna sak­leysi okkar. Hver ætti að vera til­gangur slíks?“

Í lok um­sagnar sinnar segja þre­menningarnir að lausnin á ráð­gátunni um af­drif Geir­finns Einars­sonar felist í hinum röngu sakar­giftum og fram­burði Guð­jóns Skarp­héðins­sonar.

„Slíkt hlýtur að vera öllum hugsandi mönnum ljóst sem kynna sér dóm Hæsta­réttar ís­lands frá 22. febrúar 1980.“