Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi, fagnar því að sjónum sé sérstaklega beint að stöðu láglaunakvenna á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Klukkan fjögur í dag hefst kröfuganga og að henni lokinni dagskrá í Gamla Bíói sem skipulögð er af Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna (MFÍK). Þar mun, meðal annarra, taka til máls Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins.

„Maður er leggja áherslu á efnahagslegan veruleika fátækra kvenna og það er það sem manni finnst oft hafa vantað í feminíska umræðu um jafnrétti. Það hefur ekki verið að einblína á stétt og hvernig fátækt hefur áhrif á konur. Þegar stétt og uppruni er tekin inn myndina, þá skiptir þetta verulega miklu máli fyrir veruleika margra kvenna,“ segir Sanna Magdalena í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hún segir að oft, í umræðu um jafnrétti, sé ekki eins mikil áhersla lögð á veruleika fátækra kvenna og oft þeirra barátta jafnvel tengd við annars konar fordóma. Ekki sé gerð sama tenging við kvennabaráttu og hjá öðrum konum.  

„Þannig þegar við heyrum að þegar það er talað um jafnrétti og mikilvægi þess að koma konum inn í stjórnunarstörf þá finnst manni eins og það hafi ekki verið jafn mikil áhersla á veruleika annarra kvenna sem hafa ekki fengið eins mikið rými í þessari umræðu og að það hafi verið litið fram hjá stöðu þeirra út frá einhverri fátæktarumræðu eða efnahagslegri umræðu,“ segir Sanna og bætir við:

„Það er meira þannig að þeim sé sagt að sú mismunum sem þær mæta séu einhverjir fordómar og fólk er ekki að skynja hvernig þetta tengist allt kvennabaráttu,“ segir Sanna Magdalena.

„Mega einstæðar fátækar mæður ekki eiga tíma til að ala upp börnin sín?“

„Mamma mín var að vinna á leikskóla og í aukastarfi eftir það við þrif. Maður hugsar um það hvað samfélagið er eiginlega að gera fólki. Þetta hefur svo mikil andlega áhrif á fólk að geta ekki fengið mannsæmandi laun fyrir vinnuna sína og þurfa að taka að sér annað starf. Mega einstæðar fátækar mæður ekki eiga tíma til að ala upp börnin sín? Ég sá á tímabili mömmu mína aðeins á morgnana og svo um helgar. Það er svo mikið óréttlæti í þessu,“ segir Sanna Magdalena.

Hún segir að hún fagni því umræðu dagsins og sérstaklega því að verkfallið og umræðan eigi sér stað í dag, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

„Maður fagnar þessu degi og því sem er að gerast, og sérstaklega á þessum degi, því núna virðast allir vera að tala um þetta. Þetta er einhver umræða sem hefur ekki áður fengið svona mikið vægi en nú neyðast allir til að sjá hvernig staðan er raunverulega og hvernig þær halda þessu uppi. Ég hvet alla til að koma í kröfugönguna á eftir,“ segir Sanna Magdalena að lokum.  

Eins og fyrr segir hefst kröfugangan klukkan 16. Þá verður gengið fram hjá stærstu hótelum í miðbæ Reykjavíkur og endað síðan aftur í Gamla bíó, þar sem dagskrá MFÍK hefst formlega klukkan 17. Þar munu taka til máls þær Sanna Magdalena Mörtudóttir, Nichole Leigh Mosty, Magga Stína Blöndal og Arna Jakobína Björnsdóttir munu halda tölur. Tónlistaratriði verða í höndum Spaðabana, Guðlaugar Fríðu og Kvennakórsins Impru. Drífa Snædal, forseti ASÍ, verður fundarstjóri fundarins.

Nánari upplýsingar um kröfugönguna og viðburð MFÍK hér.