Samtök atvinnulífsins (SA) höfða nú mál gegn Eflingu stéttarfélagi og krefjast þess að verkfall hreingerningafólks sem boðað hefur verið til þann 8. mars næstkomandi verði dæmt ólögmætt. Einnig er þess krafist að Efling verði dæmt til að greiða sekt í ríkissjóð vegna brota á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

SA telur að atkvæðagreiðsla Eflingar hafi ekki verið samkvæmt lögum. Segir í tilkynningu að vinnustöðvun, sem einungis eigi að ná til ákveðins hóps félagsmanna, eigi einungis að bera undir þá félagsmenn sem vinnustöðvun eigi að ná til. Þá er einnig vísað til þess að atkvæðagreiðsla hafi ekki verið póstafgreiðsla „í skilningi laganna“ því atkvæðum hafi að mestu verið aflað með kjörfundum fyrir utan einstaka vinnustaði, en eins og greint hefur verið frá keyrði Efling á milli vinnustaða á sérstökum bíl til að safna atkvæðum.

Í tilkynningu SA segir einnig að þegar atkvæði séu greidd á kjörfundi þurfi í það minnsta 20 prósent félagsmanna á atkvæðaskrá að taka þátt í atkvæðagreiðslu svo að hún sé gild.

Þá segir að lokum að „fjölmargir aðrir annmarkar“ hafi verið á atkvæðagreiðslu Eflingar og að í atkvæðagreiðslunni hafi hvorki verið fylgt lögum né vinnureglum ASÍ um fyrirkomulag atkvæðagreiðslna hjá aðildarfélögum.   

Tilkynningu SA er hægt að lesa hér.