Landsréttur hefur birt úrskurð sinn og héraðsdóms Norðurlands eystra í Ólafsfjarðarmálinu svokallaða. Úrskurðirnir varða gæsluvarðhald yfir sakborningi í málinu.

Úrskurðirnir varpa ljós á það sem lögreglu gruni að hafi átt sér stað um nóttina, þegar maður lést í íbúð á Ólafsfirði, með stungusár. Í honum segir að rannsóknargögn bendi til þess að sakborningurinn, sem nú er í haldi, hafi átt í átökum við hinn látna.

Þess má þá geta að Héraðsdómur og Landsréttur úrskurðu manninn ekki í gæsluvarðhald vegna Ólafsfjarðamálsins, heldur vegna annara brota sem hann er grunaður um. Dómstólarnir eru á þeirri skoðun að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sýna fram á að „sterkur grunur“ sé á þætti hans í málinu. Hin þrjú sem voru handtekin vegna málsins hafa jafnframt verið látin laus.

Ákæruvaldið heldur því fram að sakborningurinn játi það „í raun“ að mennirnir hafi átt í átökum. Hann vilji þó meina að um slys hafi verið að ræða. Hins vegar er haft eftir bráðabirgðaskýrslu um réttarkrufningu að útlit sé fyrir að „skarpan kraft“ hafi þurft í stunguna til að valda áverkunum á hinum látna, en hann var með tvö stungusár á vinstri síðu.

„Það er að mínu mati undarlegt að rétthentur maður sem á í átökum við örvhentan mann stingi sig tvisvar í vinstri síðu í átökum. Væntanlega ef hann hefur verið með hnífinn hefur hann beitt honum frá hægri hlið sinni,“ er haft eftir ákæruvaldinu

Samkvæmt ákæruvaldinu bendi rannsóknargögnin til þess að á einhverjum tímapunkti hafi sakborningurinn náð yfirtökum í átökunum við hinn látna og náð stjórn á hnífnum. Síðan hafi hann í átökunum stungið manninn tvisvar í vinstri síðu með þeim afleiðingum að hann lést nánast samstundis.

„Saga [sakborningsins] um að hann hafi náð hnífnum af [hinum látna] með því að ná hendi hans undir hægri hendi sína og þá hafi [sakborningurinn] fallið niður. Þetta að mínu mati stenst ekki nánari skoðun,“ er jafnframt haft eftir ákæruvaldinu.

Fréttin hefur verið uppfærð