Enska úrvalsdeildin í knattspyrnu er loksins hafin. Eftirvæntingin hefur mikil enda búist við jafnari titilbaráttu en undanfarin ár. Oft er sagt að sá enski sé þjóðarsport Íslendinga, að minnsta kosti er hann helsta þjóðarsófasportið.

Fréttablaðið ræddi við dygga stuðningsmenn átta mismunandi liða úr úrvalsdeildinni sem búist er við að verði í eldlínunni í vetur. Það er Manchester United, Manchester City, Liverpool, Everton, Arsenal, Chelsea, Tottenham og Leeds.

Liverpool vinna sinn tuttugasta titil

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er einn þekktasti stuðningsmaður Liverpool á Íslandi. Hún hefur stutt liðið síðan hún var fimm ára gömul. „Þá sat ég með pabba á laugardögum og hlustaði á Bjarna Fel og hreifst af rauðu búningunum og markmanninum, Bruce Grobbelaar sem mér fannst alveg geggjuð týpa,“ segir Katrín um þennan tíma.

„Það var enginn annar á heimilinu í þessu liði þannig að þetta var sjálfstæð ákvörðun,“ segir Katrín um það val að styðja Liverpool. „Þetta byrjaði kannski fyrir alvöru 1984 þegar ég fór með pabba að sjá KR mæta Liverpool á Laugardalsvellinum þar sem eitt sterkasta lið sem Liverpool hefur átt mætti til leiks. Leiknum lauk með jafntefli en þarna sá ég leikmenn eins og Kenny Dalglish, Ian Rush, Alan Hansen og Bruce Grobb­elaar sem áttu eftir að sópa til sín bikurum. Að sjá þetta lið með berum augum var magnað og lengi vel átti ég úrklippu úr dagblaði með mynd af Liverpool.“

Katrín segir þennan leik einn þann minnisstæðasta auk 4-0 sigurs í undanúrslitum meistaradeildarinnar á Barcelona árið 2019. Liverpool höfðu tapað fyrri leiknum 3-0 og komust því í úrslitaleikinn sem þeir unnu.

Að velja sinn uppáhaldsleikmann segir Katrín eins og að velja milli barnanna sinna en skoski framherjinn Kenny Dalglish tróni á toppnum. Hann hafi bæði verið stórkostlegur leikmaður og áhrifamikill knattspyrnustjóri hjá liðinu. Framgangan eftir Hillsbrough-slysið árið 1989 hafi gert hann að goðsögn.

„Ég er auðvitað bjartsýn að eðlisfari eins og allir alvöru Púllarar og ég er viss um að liðið verður í baráttu um titilinn á þessu tímabili,“ segir Katrín um komandi tímabil. Hún hefur mikla trú á þjálfaranum Jurgen Klopp, hans stjórnunarstíl og viðhorfum til lífsins. Það er að taka sig ekki of hátíðlega, leggja hart að sér en gleyma ekki húmornum.

„Við vorum alveg einstaklega óheppin með meiðsli í fyrra þegar mestöll varnarlínan datt út stærstan hluta tímabilsins. En nú er bara að krossa fingur og vona að Klopp hafi styrkt þetta vel og leyfa sér að hlakka til tímabilsins,“ segir Katrín. „Liverpool er að fara að vinna sinn tuttugasta Englandsmeistaratitil. Lásuð það fyrst hér. YNWA.“

Aldrei séð eftir að skipta yfir í City

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, er einn af dyggustu stuðningsmönnum Manchester City á Íslandi til þrjátíu ára. Hann hefur þrívegis séð liðið falla, þar á meðal niður í þriðju deild, og vinna fimm Englandsmeistaratitla. En þar á undan hélt hann reyndar með Liverpool í tæp tuttugu ár.

„Ég var alveg búinn að fá nóg af Liverpool, það voru alltaf svo miklar væntingar. Því ákvað ég að skipta yfir í City, sem voru lið fólksins og væntingarnar talsvert minni,“ segir Jón Atli. „Ég hef aldrei séð eftir því.“

Jón Atli segir það hafa verið mjög gefandi að fylgjast með City í gegnum árin, meira að segja þau erfiðu í kringum aldamótin. Hann bjóst aldrei við yfirtökunni og velgengninni sem hafa einkennt síðustu ár.

jónatlimancity.jpg

Jón Atli og sonur hans Friðrik horfa saman á boltann.

Af leikmönnum liðsins er Fernandinho, hinn 36 ára brasilíski miðjumaður, í mestum metum hjá Jóni Atla. „Hann er bæði góður leikmaður og hefur verið kjölfestan í liðinu um langa hríð,“ segir Jón Atli. Sá leikur sem situr hvað fastast í minninu er vitaskuld hinn dramatíski leikur gegn QPR árið 2012 þegar City tryggðu sér titilinn með tveimur mörkum í uppbótartíma, þar af annað á lokasekúndunum.

Jón Atli er bjartsýnn fyrir komandi tímabil, enda City ríkjandi meistarar og hafa styrkt sig í sumar. „Ég held að tímabilið byrji rólega og það væri gott að kaupa framherja. En þessi hópur og þessi þjálfari geta unnið Englandsmeistaratitilinn aftur og verið mjög framarlega í Evrópu,“ segir hann. Það er einmitt meistaradeildartitillinn sem vantar í skápinn.

Tekur þrjú ár að vinna deildina

Það var ekki sigurleikur sem kveikti Leeds-bakteríuna hjá Þorkeli Mána Péturssyni útvarpsmanni heldur tap. Nánar tiltekið hetjulegt 4-5 tap liðsins gegn þáverandi meisturum Liverpool fyrir 30 árum síðan.

„Ég ákvað að halda með Leeds í þessum leik til þess að pirra frænda minn. Ég varð síðan heillaður af attitúdinu í þessu liði, þeir voru nýliðar í deildinni þarna,“ segir Máni. „Þegar menn byrja að kynna sér Leeds er ekkert aftur snúið.“

mánileeds.jpeg

Harmageddon bræður, þeir Frosti Logason og Máni Pétursson eru tilbúnir fyrir tímabilið.

Leeds heilluðu marga á síðasta tímabili með djörfum leik eftir að hafa dvalið í neðri deildunum í sextán ár. Máni man hins vegar eftir Leeds sem enskum meisturum, árið 1992. „Það tók Leeds tvö ár að verða meistarar þegar þeir komu upp síðast. Ég verð nú seint sakaður um að vera sá bjartsýnasti en ég segi að það taki þá þrjú ár að vinna deildina núna,“ segir Máni.

Aðspurður um uppáhaldsleikmanninn nefnir Máni suður-afríska varnarmanninn Lucas Radebe. „Hann var svo tryggur félaginu og drap allan rasisma í borginni,“ segir hann.

„Árangurinn er alltaf annað hvort eða,“ segir Máni um þetta tímabil sem er að hefjast. „Annað hvort fara þeir í Evrópubaráttu eða að þeir geri tímabilið mjög erfitt og stuðningsmennirnir verði með í maganum. Mér er alveg sama hverjir verða meistarar … svo lengi sem það eru ekki Manchester United.“

Vill Kane til Grindavíkur

Sjónvarpsmaðurinn Gísli Einarsson hefur stutt Tottenham Hotspur síðan á áttunda áratug síðustu aldar. „Ég varð að finna mér annað lið en Liverpool og Arsenal því það var svo mikið af leiðinlegum mönnum sem héldu með þeim,“ segir Gísli. „Ég íhugaði að halda með Norwich út af Justin Fashanu og Úlfunum af því að þeir voru með svo flott nafn. En endaði hjá Tottenham af því að þeir spiluðu svo flottan bolta. Það hafa þeir gert alla tíð síðan ef undanskilið er þetta tímabil undir Mourinho.“

gísli spurs.jpg

Gísli hefur alltaf verið hrifinn af þeim bolta sem Tottenham spilar, ef frá eru talin Mourinho árin.

Gísli rifjar upp marga góða Tottenham-leikmenn eins og Ossie Ardiles og Glenn Hoddle. Á toppnum trónir hins vegar hinn rauðbirkni skoski framherji Steve Archibald. Archibald spilaði einmitt í minnisstæðasta leik Gísla, endurteknum bikarúrslitaleik árið 1981 gegn Manchester City sem endaði 3-2 fyrir Spurs. „Í ljósi þess sem seinna gerðist er sætt að muna eftir sigri gegn City,“ segir Gísli.

Eins og vanalega byggjast upp miklar væntingar fyrir tímabilið en Gísli segist reyna að stilla þeim í hóf. Hann segist geta verið býsna sáttur með 6. sætið og spáir hann Chelsea titlinum í ár. Helsta spurningin varðandi Tottenham er hvar framherjinn Harry Kane muni spila á tímabilinu. „Vonandi verður hann bara hjá Grindv

Vont að komast ekki á völlinn

Akureyringurinn Sigfríð Ingólfsdóttir er óneitanlega einn mesti aðdáandi Arsenal á Íslandi enda stundum kölluð Arsenal-konan. Hún hefur stutt liðið í fjörutíu ár og séð það lyfta ófáum dollum. „Mér fannst þetta fallegasta nafnið sem var til í enskunni,“ segir Sigfríð aðspurð um hvers vegna hún hafi valið Arsenal.

Bukayo Saka er hennar maður í liðinu núna en Thierry Henry sá besti allra tíma. Hún sér ennþá eftir þjálfaranum Arsene Wenger sem fór árið 2018. Sigfríð hefur yfirleitt farið tvisvar til þrisvar á ári til Englands til að sjá Arsenal spila. „Nú er allt stopp,“ segir hún.

sigfríð arsenal 2.jpeg

Sigfríð er ekki kölluð Arsenal-konan fyrir ekki neitt. Fréttablaðið/Auðunn

„Þetta tímabil verður ekki nógu gott. Þeir kaupa enga almennilega menn og létu besta markmanninn fara,“ segir Sigfríð. „Þeir enda í 6. eða 7. sæti. Ég held að United taki þetta núna.“ íkingum,“ segir Gísli með þjósti.

United verða meistarar

„Það er orðið erfiðara en áður að spá fyrir um boltann þar sem hinir ótrúlegustu hlutir gerast en ég held að þetta verði gott tímabil fyrir okkur,“ segir Sema Erla Serdar, mannréttindafrömuður og aðdáandi Manchester United. „Ég bind miklar vonir við liðið í ár og sérstaklega við leikmenn eins og Rashford, innan vallar sem utan. 2022 verður árið sem bikarinn skilar sér aftur á Old Trafford eftir alltof langa fjarveru.“

Sema hefur stutt rauðu djöflana frá því hún var barn og sjálf í boltanum. Hún segist ekki hafa haft neitt val á sínum tíma. Henni var einfaldlega kennt að halda með United.

semamanutd.jpg

Sema á Old Trafford árið 2011.

„Minnisstæðasti leikurinn minn er án efa Manchester Unit­ed gegn Chelsea sem ég sá ein á Old Trafford árið 2011. Ég bjó í Edinborg á þeim tíma og ferðaðist ein til Manchester til að fara á leikinn sem United vann og fór þar með í undanúrslit meistaradeildarinnar,“ segir hún. „Annars er úrslitaleikurinn í meistaradeildinni gegn Bayern Munich árið 1999 líka ógleymanlegur.“

Hennar uppáhaldsleikmaður spilaði hins vegar aldrei fyrir United, en það er hinn portúgalski Luis Figo.

Þrettán ára með teppi yfir hausnum

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, var ekki nema smágutti árið 1985 þegar hann heillaðist af Everton. Þá voru þeir Englandsmeistarar með kempur eins og Peter Reid, Trevor Steven og Neville Southall innanborðs. Hinn skoski Duncan Ferguson, sem lék síðar með liðinu er þó í mestu uppáhaldi.

Í nokkur skipti hafa Everton daðrað við fallið. Þórður man hvað best eftir leik árið 1994 þegar Everton lentu 0-2 undir gegn Wimbledon en unnu 3-2 og björguðu sér ævintýralega frá falli. „Það var mjög flókið og taugatrekkjandi að vera þrettán ára harður stuðningsmaður með falldrauginn hangandi yfir sér,“ segir Þórður. „Ég horfði á leikinn í 14 tommu fermingarsjónvarpi og var eiginlega allan leikinn með teppi yfir hausnum.“

þórðureverton.jpg

Þórður er sennilega sá eini sem á Phil Neville treyju.

Everton hafa siglt lygnari sjó síðari ár en sjaldan blandað sér í toppbaráttuna. Í eitt skipti komust þeir í meistaradeildina en duttu þá út í undankeppninni. „Þetta er saga Everton í hnotskurn. Eitt skref áfram en tvö aftur á bak,“ segir Þórður.

„Ég sé mjög svipaða stöðu á þessu tímabili og því síðasta,“ segir Þórður en þá hafnaði liðið í 10. sæti og býst hann við sigri City enn á ný. „Sá bolti sem Everton spiluðu undir lok síðasta tímabils var einhver sá versti sem ég hef séð. Nýjir leikmenn fá blóðið ekki til að renna og mjög blendnar tilfinningar að sjá Rafa Benitez taka við liðinu.“

Aðspurður segir Þórður helst ríginn við Liverpool skipta mestu máli. „Þegar þú heldur með liði sem vinnur aldrei neitt áttu aðeins tvennt. Annars vegar þórðargleðina þegar Liverpool gengur illa og hins vegar tálvon um að hlutirnir verði einhvern tímann betri. Annars væri þetta óbærilegt.“

Stöðugleikann hefur vantað

Einar Hermannsson, formaður SÁÁ, byrjaði ekki að halda með Chelsea út af Eiði Smára Guðjohnsen eða peningum Romans. Það var ítalski galdrakarlinn Gianfranco Zola sem dró hann að fyrir kvartöld síðan.

EinarChelsea.jpg

Einar elur barnabörnin Bjart Frey og Arabellu Sigrúnu vel upp.

Hugurinn þarf ekki að leita langt aftur til þess að finna minnisstæðasta leikinn, en það er úrslitaleikur meistaradeildarinnar í vor þegar Chelsea lagði Manchester City 1-0.

„Það sem ég sakna er stöðugleiki og vona að Thomas Tuchel fái frið til að byggja lið. Það hafa verið 10 þjálfarar á síðustu 10 árum,“ segir Einar. „Ég held að Chelsea endi að minnsta kosti í topp þremur í vetur og gætu vel unnið titilinn. Ef ekki þá taka Liverpool þetta.“