Shreera­j Laturia, 42 ára Breti, segist ekki hafa séð neinn til­gang með lífinu eftir hörmu­legt um­ferðar­slys hér á landi um jólin 2018. Eigin­kona hans og ellefu mánaða dóttir létust þegar Shreera­j missti stjórn á bif­reið sem hann ók. Slysið varð á brúnni yfir Núps­vötn.

Alls voru sjö í bílnum þegar slysið varð en í slysinu lést einnig 36 ára mág­kona Shreera­j. Shreera­j slasaðist mikið í slysinu sem og eldri dóttir þeirra hjóna sem þá var átta ára. Hann sagði sögu sína í við­tali við net­miðilinn MyLondon sem birtist í gær.

Í við­talinu rifjar hann meðal annars upp það sem fyrir augu bar þegar hann vaknaði eftir slysið sem varð þann 27. desember 2018. Móðir Shreera­j flaug frá Ind­landi til Ís­lands og var hún við sjúkra­beðinn þegar hann vaknaði.

Vissi ekki hvað hann var að gera á Íslandi

„Ég man að ég spurði hana hvað ég væri eigin­lega að gera á Ís­landi,“ segir hann og bætir við að hann hafi einnig spurt um eigin­konu sína og dóttur. Fljót­lega hafi runnið upp fyrir honum hver ör­lög þeirra urðu.

Shreera­j var svo flogið til Eng­lands þar sem við tók endur­hæfing eftir slysið. Hann og eigin­kona hans, Rajs­hree, höfðu byrjað að hlaupa saman skömmu fyrir slysið. Að­eins nokkrum dögum fyrir slysið höfðu þau hlaupið saman hálf­mara­þon í fyrsta sinn og höfðu þau stefnt á að fara enn lengri vega­lengd saman þegar slysið varð.

Hlaupin höfðu jákvæð áhrif

Shreera­j byrjaði að hlaupa aftur þegar hann hafði jafnað sig að mestu eftir slysið og segir hann að þau hafi hjálpað honum mikið í þeirri sorg sem hann hefur gengið í gegnum. Í hlaupunum nái hann að róa hugann og líkir þeim í raun við á­kveðna hug­leiðslu.

„Fyrst eftir slysið sá ég engan til­gang með því að lifa. Enga á­stæðu til að halda á­fram,“ segir hann og bætir við að hann hafi á­sakað sjálfan sig eftir slysið. Hlaupin hafi hjálpað honum að ná jafn­vægi á nýjan leik. Hann var undir stýri þegar slysið varð en þeir sem létust voru ekki í öryggis­belti sam­kvæmt skýrslu rann­sóknar­nefndar sam­göngu­slysa sem kom út í fyrra­sumar.

Í við­talinu ræðir Shreera­j einnig um á­hrifin sem slysið hafði á eldri dóttur hans sem missti bæði móður sína og litla systur í slysinu. Þau hafa reynt að ein­blína á það já­kvæða í lífinu og segir Shreera­j að þau verji miklum tíma saman.

Við­tal MyLondon við Shreera­j.