„Þetta var fyrst og fremst mjög kjánalegt,“ segir Haraldur Á. Gíslason, umboðsmaður Miðflokksins í Garðabæ, sem í kosningunum á laugardag gerði athugasemd við það hvernig kjörseðillinn var brotinn saman.

„Seðillinn var ekki brotinn til helminga heldur tvíbrotinn og Miðflokksendinn var brotinn sér. Þannig að hann sást ekki nema þú opnaðir seðilinn alveg. Ég tók ekki eftir þessu fyrr en ég kaus sjálfur,“ segir Haraldur sem kveður kjörstjórnina hafa tekið vel í athugasemd Miðflokksmanna og afhent kjörseðilinn opinn til kjósenda eftir það.

Haraldur kveður engin eftirmál verða vegna þessa máls. „Ég held nú ekki að við höfum tapað manni fyrir þetta,“ bendir hann á. Miðflokkurinn fékk 3,7 prósent atkvæða í Garðabæ og var langt frá því að ná inn bæjarfulltrúa. „Ég hafði svo sem ekki stórar áhyggjur af þessu.“

Fréttablaðið/Aðsend