Klara Bjart­marz, fram­kvæmda­stjóri Knatt­spyrnu­sam­bands Ís­lands, segist ekki hafa beitt sér fyrir í máli Þór­hildar Gyðu Arnars­dóttur þar sem hún taldi ekki ráð­lagt að margir væru að vinna í málinu. Þór­hildur steig ný­lega fram þar sem hún greindi frá of­beldi sem leik­maður í karla­lands­liðinu beitti hana árið 2017.

Í tíu­fréttum Ríkis­út­varpsins í gær, að loknum mara­þon­fundi stjórnar KSÍ þar sem stjórnin til­kynnti að hún myndi segja af sér, viður­kenndi Klara að hún hafi fengið tölvu­póst frá föður Þór­hildar þar sem greint var frá málinu en áður hafði hún sagt að hún hafi ekki vitað af málinu. Að sögn Klöru var henni tjáð af Guðna Bergs­syni, sem sagði af sér í fyrra­dag sem for­maður KSÍ, að málið væri komið í ferli.

„Ég viður­kenni það að ég spurði ekki Guðna í hvaða ferli málið fór. En Guðni tjáði mér það að málið væri komið í ferli, og ég veit ekki hvort ég á að segja af­greitt, eða væri alla vega komið í ferli hjá við­eig­andi aðilum. Og ég gerði ekkert frekar í því,“ sagði Klara í við­tali við RÚV en hún sagðist hafa verið farin heim frá Banda­ríkjunum þar sem þau voru þá stödd til að sinna öðrum verk­efnum.

Að­spurð um hvort hún hafi heyrt af fleiri brotum innan hreyfingarinnar sagðist Klara hafa heyrt í sumar af hóp­nauðgun, en á­ætla má að hún sé þar að tala um at­vik sem greint var frá á sam­fé­lags­miðlum í sumar þar sem ung kona steig fram og sakaði meðal annars einn lands­liðs­mann um að hafa nauðgað sér árið 2010.

„Það mál var líka flutt í ferli. Það er alveg ljóst, við höfum sagt það opin­ber­lega, það gekk ekki nógu vel hjá okkur. Það er ein af á­stæðum þess að við erum hér í kvöld,“ sagði Klara en hún sagðist ekki hafa beitt sér heldur fyrir í því máli þar sem hún var ekki með liðinu þegar sú á­bending kom.

„Við höfum unnið þannig að við erum ekki að vinna málið á mörgum víg­stöðvum í einu. Þessi brot eru við­kvæm, þau eru per­sónu­leg. Ég get ekki séð að það sé hagur fyrir neinn aðila að fleiri aðilar séu að vinna í málinu,“ sagði Klara enn fremur.

Að lokum greindi Klara frá því að KSÍ hafi á dögunum fengið á­bendingu um brot á síðustu dögum en hún sagðist ekki vita hvort lands­liðs­maður hafi átt sök í því máli. „Það var strax sett í ferli eða fengin ráð­gjöf hjá þessum nýja starfs­hóp sem er við það að taka til starfa. Það kom til á­kveðins stjórnar­manns og við­komandi stjórnar­maður flutti það í ferli til þess aðila sem nefndur hefur verið.“

Þrátt fyrir að stjórn KSÍ hafi á­kveðið að segja af sér í gær­kvöldi hefur Klara til­kynnt að hún muni sitja á­fram. Vísaði hún til þess að hún hafi starfað hjá sam­bandinu í 27 ár og hún sé klár til að takast á við þau verk­efni sem þau standa fyrir þegar ný stjórn tekur við.