„Til þess að liðka fyrir viðræðum og lausn geta Samtök atvinnulífsins fallist á að gildistaka kjarasamninga verði afturvirk frá 1. janúar 2019. Skilyrðið fyrir því er þó að samningar náist fyrir lok þessa mánaðar sem taki mið af svigrúmi atvinnulífsins til launahækkana. Þetta tilboð fellur auðvitað niður ef viðræðum verður slitið og boðað til verkfalla enda ber allt samfélagið kostnað af þeirri aðgerð,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Í dag fer fram annar samningafundur hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilu SA við Eflingu, VR og Verkalýðsfélag Akraness. Fyrsti fundurinn fór fram milli jóla og nýárs en á þeim fundi var ríkissáttasemjari fyrst og fremst að kalla eftir upplýsingum frá deiluaðilum.

Meðal þess sem verkalýðshreyfingin hefur lagt mikla áherslu á er að samningar verði afturvirkir.

Halldór segir að krafan um afturvirkni sé ekki ný af nálinni og geti verið skynsamleg ef skynsamlegir samningar nást.

„Um þessi stóru efnisatriði eins og launahækkanir, samningstíma og afturvirkni er tekin ákvörðun í lok viðræðna.“

Hann segir kröfuna um afturvirkni byggja á norrænni fyrirmynd þar sem stéttarfélög skilgreini það sem eitt af sínum mikilvægustu hlutverkum að gera kjarasamninga sem raski ekki samkeppnisstöðu meginatvinnugreinanna.