Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir í samtali við Fréttablaðið um niðurstöðu Félagsdóms að það sé mikilvægt að leikreglur séu skýrar. Hann segir að ekki eigi að tala um verkföll af léttúð. Hann segir enga sigurvegara vera í vinnudeilum. 

Félagsdómur komst að því fyrr í dag að verkfall meðal hótelþerna væri lögmætt. 

Sjá einnig: Verk­fall Eflingar lög­mætt og hefst í fyrra­málið

„Það er mikilvægt að aðilar geti skotið málum til Félagsdóms. Það eru mörg túlkunaratriði í þessu og við létum reyna á þetta þarna. Dómurinn er fallinn og hann er okkur í óhag. En það er mikilvægt fyrir samtök atvinnulífsins, verkalýðsfélögin og raun samfélagið allt að leikreglur séu skýrar og þessi dómur skýrir það að einhverju leyti,“ segir Halldór og bætir við: 

„Niðurstaðan er sú að verkfallið á morgun kemur til framkvæmda og það er mikilvægt að við tölum ekki um verkföll af léttúð. Þau valda miklu tjóni í hagkerfinu og samfélaginu og miklu álagi á þeim vinnustöðum sem þau til taka. Það getur enginn hlakkað til verkfalla,“ segir Halldór.

Sólveig Anna talaði um það í dag, þér finnst ekki rétt að orða það þannig? 

„Þetta er nú bara til að velja eitthvað orðalag, en þetta er ekkert gamanmál. Verkföll eru allra tjón fyrir samfélagið. Í vinnudeilum eru engir sigurvegarar,“ segir Halldór.

Hann segir að ekki sé búið að áætla hversu mikið tjónið verður í krónutölu en segir að áhrifa slíkra verkfalla megi líka gæta í orðspori, en ekki bara fjár.

„Við höfum brýnt það fyrir okkar atvinnurekendum að hlíta lögum um vinnulöggjöfina í hvívetna og ég árétta það hér með,“ segir Halldór að lokum.

Verkfall hótelþerna hefst klukkan tíu á morgun og stendur til miðnættis.