Nýr EQS mun koma á nýjum undirvagni sem kallast EVA og strax frá frumsýningu kemur hann í tveimur útfærslum. Grunngerðin mun kallast EQS 450+ og verður með einum rafmótor á afturdrifi sem skilar 329 hestöflum og 568 Nm togi. EQS 580 4MATIC bætir rafmótor á framöxul og fer þá hestaflatalan í 516 og togið í 855 Nm. Báðir bílar verða með takmarkaðan hámarkshraða við 210 km á klst. Tvær rafhlöður verða í boði, sú minni 90 kWst og sú stærri hvorki meira né minna en 107,8 kWst sem dugar honum fyrir 770 km drægi. Ekki hafa verið gefnar upp tækniupplýsingar fyrir aðrar gerðir. Bíllinn er búinn 400 volta rafkerfi sem við 200 kW hleðslustöð hleður bílinn í 300 km drægi á aðeins 15 mínútum.

Háskerpuskjárinn í mælaborðinu er alls 55,5 tommur á breidd.

Að sögn hönnuða Mercedes næst gott drægi ekki síst fyrir þá staðreynd að bíllinn klýfur loftið vel. Hann er með litla loftmótstöðu og margt í ytri hönnun hans gert til að minnka hana enn frekar. Undirvagninn er rennisléttur, fremsti hluti bílsins er lækkaður mikið og loftinntök lokast þegar þau eru ekki í notkun. Fyrir vikið er loftmótstaðan aðeins 0,20 Cd sem er það minnsta sem í boði er á framleiðslubíl. Eins og fram hefur komið er innanrýmið hönnunarstúdía út af fyrir sig og er sambyggður háskerpuskjárinn í mælaborði bílsins alls 55,5 tommur á breidd. Hann liggur í boga allt yfir til farþegans við hlið bílstjórans sem hefur sinn eigin skjá til að horfa á. Að sögn Jónas Kára Eiríkssonar hjá Öskju er EQS væntanleg hingað til lands síðsumars.