„Við höfum talsverðar áhyggjur af þessu enda vísbendingar um þróun í öfuga átt sem við erum virkilega að skoða,“ segir Runólfur Þórhallsson, yfirmaður greiningardeildar ríkislögreglustjóra um aukna hættu á ofbeldi í garð stjórnmálafólks.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að rannsókn skotárásar á bíl borgarstjóra í janúar síðastliðnum hefði verið hætt og mál gegn fyrrverandi lögreglumanni sem sat í gæsluvarðhaldi snemma á árinu, grunaður um verknaðinn, hefði verið fellt niður hjá embætti héraðssaksóknara.

„Við höfum verið í samskiptum við flokkana og fulltrúa í Ráðhúsinu um öryggisráðgjöf,“ segir Runólfur. Fram hefur komið að öryggisviðbúnaður hefur verið bæði við Ráðhús og heimili Dags B. Eggertssonar frá því að málið kom upp.

Runólfur telur þó að við séum ekki endilega komin á þann stað að stjórnmálafólk geti ekki lengur gengið öruggt um götur eins og aðrir borgarar. „Við erum kannski ekki alveg tilbúin að fara þangað en þetta eru klárlega vísbendingar um mögulegan nýjan veruleika,“ segir Runólfur.

Hann vísar einnig til þess að traust til stjórnmálaflokka hafi lengi mælst lítið og mögulega séu áhrif þess sem gerðist 2008 enn að koma fram.

Mynd/Fréttablaðið

Hann vísar til þess að árið 2012 hafi sprengju verið komið fyrir við Stjórnarráðið, rúmum þremur árum eftir efnahagshrunið. Þótt vitað sé hver kom sprengjunni fyrir, var rannsókn þess máls einnig lokið án ákæru. Sá hafði ætlað að koma sprengjunni fyrir við heimili forsætisráðherra en ekki fundið heimilisfangið og því komið henni fyrir við Stjórnarráðið.

Runólfur segir að þrátt fyrir að lítið hafi verið gert úr því atviki hafi rannsókn greiningardeildar sýnt að sprengjan sjálf var öflug. Það vildi hins vegar svo til að gerandinn rann og datt þegar hann var að koma henni fyrir. Þarna hefði þó getað farið illa en ríkisstjórnin var að funda í húsinu sama morgun.

„Auðvitað hefur þetta áhrif, málsmeðferð lögreglu og ákæruvalds í þessum málum. Fólk þarf að bera traust til réttarkerfisins,“ segir Runólfur um möguleg áhrif þess að rannsóknir þessara mála séu felldar niður án ákæru. Hann bendir á mikilvægi trausts til réttarkerfisins.

„Við sjáum það líka með yfirstandandi umræðu um kynferðisbrotin að það má velta fyrir sér tengslum þessarar menningarbyltingar núna og vangetu réttarkerfisins til að taka á kynferðisbrotum af nægilega mikilli festu. Það er kannski ákveðin grunntenging þar,“ segir Runólfur.

Runólfur Þórhallsson, yfirmaður greiningardeildar ríkislögreglustjóra
mynd/aðsend